Fótbolti

Heimsótti Sadio Mane á sjúkrahúsið og var enn í markmannsbúningnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane ætlar sér að ná leiknum í átta liða úrslitum Afríkukeppninnar.
Sadio Mane ætlar sér að ná leiknum í átta liða úrslitum Afríkukeppninnar. EPA-EFE/TIM KEETON

Liverpool leikmaðurinn Sadio Mane endaði á sjúkrahúsi í gær eftir að hafa fengið slæmt höfuðhögg eftir samstuð í leik Senegal og Grænhöfðaeyja í sextán liða úrslitum Afríkukeppninnar.

Mane fór þó ekki strax út af vellinum heldur náði að skora fyrsta mark Senegal áður en hann varð að hætta leik. Margir hafa sett spurningarmerki við það að hann hafi leikið áfram eftir heilahristing ekki síst þegar í ljós kom alvarleiki höggsins.

Mane var nefnilega fluttur á sjúkrahús til frekari rannsókna. Hann bar sig þó vel og vill örugglega gera allt til að ná næsta leik.

Mane hafði lent í samstuði við Vozinha, markvörð Grænhöfðaeyja, í leiknum en hann skoraði síðan hjá honum nokkrum mínútum síðar.

Vozinha hafði greinilega áhyggjur af Liverpool manninum því hann dreif sig upp á sjúkrahús strax eftir leik og heimsótti Mane.

Vozinha gaf sér ekki einu sinni tíma til að fara úr markmannsbúningunum eftir leikinn svo mikið lá honum á að komast upp á sjúkrahús.

Hér fyrir neðan má sjá mynd af þeim saman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×