Íslenski boltinn

Keflavík fær færeyskan landsliðsmann í framlínuna

Sindri Sverrisson skrifar
Patrik Johannesen er kominn í búning Keflavíkur.
Patrik Johannesen er kominn í búning Keflavíkur. Keflavík

Knattspyrnudeild Keflavíkur hefur samið við færeyska landsliðsmanninn Patrik Johannesen um að spila með liðinu á komandi keppnistímabili.

Patrik er 26 ára gamall sóknarmaður og á að baki að minnsta kosti 12 A-landsleiki fyrir Færeyjar, þar af tvo í undankeppni HM á síðasta ári.

Samkvæmt tilkynningu Keflvíkinga getur Patrik leikið sem bæði kant- og sóknarmaður en honum er lýst sem öflugum leikmanni sem auka muni breiddina í leikmannahópi Keflavíkur.

Patrik lék síðast með Egersund í norsku C-deildinni og skoraði þar 13 mörk í 21 leik. Áður skoraði hann grimmt í færeysku deildinni þar sem hann hefur leikið með KÍ Klaksvík, B36, AB og TB, en hann lék einnig með norska liðinu Florö í B-deild árið 2018.

Keflavík seldi á dögunum miðjumanninn unga Davíð Snæ Jóhannsson til ítalska félagsins Lecce. Félagið hefur hins vegar auk þess að fá Patrik fengið finnska miðvörðinn Dani Hatakka, miðjumennina Sindra Snæ Magnússon frá ÍA og Erni Bjarnason frá Leikni, vinstri bakvörðinn Ásgeir Pál Magnússon frá Leikni Fáskrúðsfirði, og markverðina Ásgeir Orra Magnússon frá Njarðvík og Rúnar Gissurarson úr Reyni Sandgerði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×