Erlent

Tveir hand­teknir eftir að kennari var myrtur á Ír­landi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Tugir þúsunda hafa verið viðstaddir minningarathöfnum um Ashling Murphy, sem var myrt í síðustu viku. Á myndinni má sjá nemendur hennar halda á mynd af henni við útför hennar í Tullamore.
Tugir þúsunda hafa verið viðstaddir minningarathöfnum um Ashling Murphy, sem var myrt í síðustu viku. Á myndinni má sjá nemendur hennar halda á mynd af henni við útför hennar í Tullamore. AP/Niall Carson

Tveir karlmenn hafa verið handteknir í tengslum við morðið á Ashling Murphy, sem var myrt fyrir viku síðan þegar hún var úti að skokka í bænum Tullamor í Offaly sýslu á Írlandi. 

Murphy var 23 ára gömul og starfaði sem grunnskólakennari. Hún var myrt síðdegis á miðvikudag í síðustu viku þegar hún var úti að skokka við ána Grand Canal. 

31 árs gamall fjölskyldufaðir með tengsl við Offaly sýslu var handtekinn í gær vegna málsins. Hann hafði leitað á sjúkrahús í Dublin og verið þar í fimm daga vegna áverka sem vöktu grun hjá lögreglu. 

Annar maður hefur nú verið handtekinn. Samkvæmt frétt Guardian er sá félagi hins fyrri og var handtekinn grunaður um að hindra framgang réttvísinnar. Lögregla getur haldið honum í gæsluvarðhaldi í þrjá daga en hinum fyrri í einn sólarhring. Samkvæmt upplýsingum Guardian var hann yfirheyrður í meira en ellefu klukkustundir í gær og hófust yfirheyrslur yfir honum aftur í morgun. Lögreglu ber að leysa hann úr haldi klukkan níu í kvöld að staðartíma, kjósi hún ekki að ákæra manninn. 

Vettvangur glæpsins við árbakkann er enn lokaður af og standa lögreglumenn vakt þar allan sólarhringinn. Þá er enn verið að leita að sönnunargögnum á vettvangi og mögulegu morðvopni. Þá hefur lögregla gert húsleit í tveimur húsum í tengslum við málið. 

Málið hefur vakið mikla reiði á Írlandi. Tugir þúsunda hafa verið viðstaddir minningarathöfnum, bæði á Írlandi, í Englandi og í New York í Bandaríkjunum. Þá hafa margir tengt málið við morðið á Söruh Everard, sem var myrt í Englandi á síðasta ári, og rætt morðin í sambandi við öryggi kvenna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×