Fótbolti

Búin að klára læknis­námið með at­vinnu­mennsku fót­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nadia Nadim á ferðinni í leik með danska landsliðinu. Þrjú af 38 mörkum hennar fyrir landsliðið komu á móti Íslandi.
Nadia Nadim á ferðinni í leik með danska landsliðinu. Þrjú af 38 mörkum hennar fyrir landsliðið komu á móti Íslandi. EPA/VINCENT JANNINK

Nadia Nadim flúði Afganistan ellefu ára gömul eftir að faðir hennar var drepinn. Síðan hefur hún gert mikið með tækifærin sín bæði inn á knattspyrnuvellinum en líka utan hans.

Nadim sagði frá því á miðlum sínum um helgina að hún sé nú orðin doktor Nadia Nadim eftir að hún kláraði læknisnámið.

„Þakkir til allra sem hafa stutt við bakið á mér frá fyrsta degi og til allra vinanna sem ég hef eignast á leiðinni. Ég hefði ekki getað þetta án ykkar og ég verða alltaf þakklát fyrir ykkar stuðning,“ skrifaði Nadia Nadim en bætti svo við:

„Fyrir hina sem trúðu ekki á mig og gagnrýndu mig. Ég stóð mig vel og það er ekkert sem þið gert í því,“ skrifaði Nadia.

Nadim hélt áfram í námi samhliða því að spila sem atvinnukona í knattspyrnu.

Hún talar ellefu tungumál og kláraði læknisnámið á fimm árum. Tungumálin sem hún talar eru danska, enska, spænska, franska, þýska, persíska, dari, urdu, Hindi, arabíska og latneska.

Nadia Nadim hefur undanfarin tvö ár spilað með franska liðinu Paris Saint-Germain en var þar áður hjá Manchester City. Hún er núna leikmaður bandaríska liðsins Racing Louisville FC.

Nadia hefur skorað yfir tvö hundruð mörk fyrir félög sín og er jafnframt komin með 38 mörk í 99 landsleikjum fyrir Dani.

Nadia flúði Afganistan þegar Talibanar drápu föður hennar árið 2000. Fjölskyldan endaði í Danmörku þar sem hún byrjaði fótboltaferil sinn. Fyrsta reynsla hennar af Meistaradeildinni kom með Fortuna Hjørring þar sem hún skoraði tvö mörk í fyrsta leik.

Hún spilaði síðan með liðum Sky Blue FC og Portland Thorns í bandarísku deildinni en hún var liðsfélagi Dagnýjar Brynjarsdóttur hjá því síðara.

Nadia hélt áfram í námi þrátt fyrir atvinnumannaferil sinn og stundaði læknisnám við skóla í Árósum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×