Fótbolti

Sara fékk hlýjar móttökur: „Súrrealískt að eiga núna barn“

Sindri Sverrisson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir og sjúkraþjálfari Lyon glaðbeitt á æfingu. Sara mun þurfa að verja miklum tíma í séræfingar til að geta byrjað að spila fyrir Lyon og íslenska landsliðið að nýju.
Sara Björk Gunnarsdóttir og sjúkraþjálfari Lyon glaðbeitt á æfingu. Sara mun þurfa að verja miklum tíma í séræfingar til að geta byrjað að spila fyrir Lyon og íslenska landsliðið að nýju. Skjáskot/@olfeminin og @sarabjork90

Sara Björk Gunnarsdóttir hélt stutta tölu fyrir samherja sína í franska stórliðinu Lyon eftir að hún sneri aftur til félagsins úr barneignaleyfi. Hún er byrjuð að æfa að nýju og tilbúin að leggja hart að sér en þarf einnig að hlusta vandlega á líkamann.

„Það tekur svolítinn tíma fyrir mig en ég get ekki beðið eftir því að snúa aftur á völlinn með ykkur,“ sagði Sara í ræðu sinni fyrir liðsfélagana, eins og sjá má á myndskeiði sem Lyon birti á samfélagsmiðlum.

Sara fæddi soninn Ragnar Frank 16. nóvember og er nú, innan við tveimur mánuðum síðar, byrjuð að taka á því í sérþjálfun hjá Lyon. Þessi 31 árs gamla knattspyrnukona vonast til að geta keppt á EM í Englandi í sumar.

„Ég er svakalega ánægð með að vera mætt aftur. Þetta var orðinn langur tími og ég hef saknað liðsins og þess að vera í kringum liðsfélagana í búningsklefanum. Það er mjög gott en ég veit að ég á langt í land. Vonandi ekki of langt. Ég mun leggja hart að mér og vonandi verð ég fljótlega aftur á vellinum með stelpunum,“ sagði Sara í myndbandinu sem Lyon birti.

„Mikið hormónaflæði og mikið af tilfinningum“

Hún nýtur þess í botn að vera orðin móðir og kveðst afar þakklát fyrir að geta jafnframt haldið áfram að spila sem atvinnumaður, hjá einu albesta liði heims:

„Það er mikið hormónaflæði og mikið af tilfinningum. Það er svolítið súrrealískt að eiga núna barn. En það er líka stórkostleg tilfinning – sú besta sem maður getur ímyndað sér. Ég held að aðeins mæður geti tengt við það. En ég er svo þakklát fyrir að geta verið móðir en samt haldið áfram að spila sem atvinnumaður. Við tökum stöðuna frá degi til dags og ég þarf að hlusta mjög vandlega á líkamann minn, og gæta þess hve hratt ég fer. Við tökum stöðuna dag frá degi, viku frá viku, og sjáum hvernig mér líður,“ sagði Sara og bætti við:

„Það er dásamlegt að koma aftur og fá þessar móttökur frá öllum. Á vissan hátt var eins og að ég hefði aldrei farið neitt. Þegar maður er á Íslandi þá er maður svolítið fjarri félaginu og liðsfélögunum en ég fékk fullt af góðum skilaboðum frá þeim á meðgöngunni. En það er dásamlegt að fá þessar góðu móttökur og vita að allir hérna styðja við bakið á mér.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×