Fótbolti

Frægur eftir að hafa hermt eftir markverði: „Varð miklu stærra en ég hélt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Þorleifur Úlfarsson sýndi leikhæfileika sína þegar hann hermdi eftir markverði UCLA.
Þorleifur Úlfarsson sýndi leikhæfileika sína þegar hann hermdi eftir markverði UCLA. vísir/vilhelm

Þorleifur Úlfarsson vakti mikla athygli, jafnvel heimsathygli, fyrir rimmu sína við markvörð UCLA í bandaríska háskólaboltanum. Hann segir að atvikið hafi orðið miklu stærra en hann bjóst við.

Eftir að Duke komst yfir í leik gegn UCLA ákvað Þorleifur að salta í sár markvarðar liðsins og gerði grín að tilraunum hans til að reyna að verja. Það mæltist ekki vel fyrir hjá markverðinum og samherja hans sem hrinti Þorleifi.

Myndband af atvikinu fór eins og eldur um sinu um netheima og fékk mikið áhorf. Þorleifur fékk því miklu meiri athygli en hann gat ímyndað sér.

„Þetta varð miklu stærra en ég hélt það yrði. Þetta varð alveg rugl stórt og kom mjög á óvart. Þetta varð miklu neikvæðara en maður hélt þannig maður reyndi bara að blokka þetta út og pæla ekkert í þessu,“ sagði Þorleifur í samtali við Vísi.

Hann segir að markvörðurinn hafi verið með mikla stæla í leiknum og á endanum hafi hann fengið nóg.

„Jájá, kannski aðeins meira en venjulega og þetta fór aðeins of mikið í taugarnar. En þetta er bara eins og gengur og gerist,“ sagði Þorleifur.

Hann átti gott tímabil með Duke og skoraði fimmtán mörk fyrir Bládjöflana sem enduðu í 2. sæti í hinni sterku ACC-deild. Þorleifur var valinn besti sóknarmaður deildarinnar. Hann er í nýliðavali MLS-deildarinnar sem hefst klukkan 20:00 í kvöld og búist er við því að hann verði valinn með þeim fyrstu.

Hann viðurkennir að atvikið með markvörð UCLA hafi undið heldur betur upp á sig.

„Jújú, þegar maður sér að milljónir manns hafa horft á þetta er þetta orðið miklu stærra en maður hélt,“ sagði Þorleifur sem er uppalinn hjá Breiðabliki og lék einn leik með liðinu í Pepsi Max-deild karla síðasta sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×