Erlent

Þúsundir hringja í bólusetningar-þjónustusíma fyrir óvissa

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Læknanemar svara í símann en leita til sérfræðinga ef þeir sem hringja þurfa ítarlegri svör. Margar fyrirspurnirnar varða persónulegar aðstæður viðkomandi einstaklinga.
Læknanemar svara í símann en leita til sérfræðinga ef þeir sem hringja þurfa ítarlegri svör. Margar fyrirspurnirnar varða persónulegar aðstæður viðkomandi einstaklinga. epa/Zoltan Balogh

Símaþjónusta sem læknar í Hollandi opnuðu fyrir þá sem hafa efasemdir um bólusetninguna gegn Covid-19 fær um þúsund símtöl á dag. Þeir sem hringja eru einstaklingar sem hafa ekki getað gert upp við sig hvort þeir eigi að þiggja bólusetningu.

Starfsmenn símaþjónustunnar eru læknanemar, sem svara símtölunum frá aðstöðu sem hefur verið komið upp á háskólasjúkrahúsum víðsvegar um landið. Robin Peeters, innkirtlasérfræðingur við Erasmus-læknamiðstöðina í Rotterdam og annar stofnanda þjónustunnar, segir viðtökurnar hafa verið ótrúlega góðar.

Peeters sagði í samtali við ríkisfjölmiðilinn NOS að svo virtist sem fleiri óbólusettir hefðu ákveðnar efasemdir frekar en að þeir væru beinlínis á móti bólusetningum. Sagði hann þjónustuna miða að því að hjálpa einstaklingum að komast að niðurstöðu og freista þess þannig að draga úr spítalainnlögnum af völdum Covid-19.

Þeir sem hringja í þjónustusímann falla í þrjá flokka, að sögn Peeters. Fyrst væru þeir sem eru með spurningar um það hvaða áhrif bóluefnin munu hafa á þá persónulega, til dæmis vegna undirliggjandi sjúkdóma eða annarra lyfja sem viðkomandi eru að taka. Þá væru margir sem hefðu spurningar um áhrif bólusetninga á meðgöngu og frjósemi. Þriðji hópurinn væru þeir sem væru beinlínis á móti bóluefnum en reynt væri að halda samtölum við þá í styttri kantinum til að geta svarað þeim sem hefðu raunverulegar spurningar um bólusetninguna.

Peeters segir þjónustunni ekki ætlað að sannfæra fólk eða þvinga það í bólusetningu. Í hvert sinn sem læknanemarnir gætu ekki svarað spurningu, væri leitað til sérfræðinga til að tryggja að þeir sem hringdu inn fengju nákvæm svör.

The Guardian greindi frá.

Á Íslandi geta þeir sem hafa spurningar um bólusetninguna gegn Covid-19 leitað svara á covid.is og fengið nánari upplýsingar í netspjallinu á síðunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×