Fótbolti

Albert hoppaði úr flugvél og íhugar sína kosti

Sindri Sverrisson skrifar
Albert Guðmundsson lauk árinu vel með AZ Alkmaar og skellti sér svo í fallhlífarstökk í Dúbaí.
Albert Guðmundsson lauk árinu vel með AZ Alkmaar og skellti sér svo í fallhlífarstökk í Dúbaí. Getty/@albertgudmundsson

Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson nýtti frítíma sinn í Dúbaí um jólin til að skella sér í fallhlífarstökk.

Albert sýndi frá stökkinu á Instagram. Liðsfélagar hans í íslenska landsliðinu virtust ekki sérstaklega spenntir fyrir því að leika sama leik en Alfreð Finnbogason skrifaði til að mynda „Þú ert náttúrulega ekki eðlilegur“ og Andri Fannar Baldursson skrifaði einfaldlega „Fuck“.

Albert er leikmaður AZ Alkmaar í Hollandi en ferðaðist ekki með liðinu í æfingaferð til Valencia á Spáni í gær. Á heimasíðu AZ segir að það sé vegna þess að Albert sé veikur.

Þessi 24 ára landsliðsmaður virðist vera á förum frá félaginu. Frá og með 1. janúar má Albert fara í samningaviðræður við hvaða félag sem er þar sem að samningur hans við AZ rennur út í sumar. Hann hefur til að mynda verið orðaður við Celtic í Skotlandi og Lazio á Ítalíu.

Lið AZ ferðaðist til Valencia til að búa sig undir seinni hluta tímabilsins á Hollandi, eftir fullkominn desembermánuð þar sem liðið vann alla sjö leiki sína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×