Erlent

Fjöl­­menn mót­­mæli í Amsterdam vegna sótt­varna­að­­gerða stjórn­valda

Smári Jökull Jónsson skrifar
Covid mótmæli í Amsterdam
Covid mótmæli í Amsterdam Vísir/EPA

Þúsundir komu saman á götum Amsterdam í dag þrátt fyrir gildandi samkomubann í Hollandi. Mótmælendur eru ósáttir við aðgerðir stjórnvalda vegna kórónuveirunnar.

Mótmælendur söfnuðust saman á Museumplein og báru skilti með boðskap sínum. Lítill hópur mótmælenda lenti í átökum við óeirðalögreglu sem reyndu að rýma svæðið samkvæmt fyrirskipunum borgarstjóra Amsterdam, Femke Halsema.

Stjórnvöld höfðu sett bann við mótmælunum en lögreglan hafði haft veður af áformum mótmælenda og voru undirbúnir fyrir átök. Yfirvöld í Amsterdam gáfu síðan út neyðartilskipun þar sem fólki var skipað að yfirgefa svæðið og óeirðalögregla beindi mótmælendum í nærliggjandi götur.

Á skiltum mótmælenda voru slagorð eins og „Þetta snýst ekki um veiru, þetta snýst um vald“ og „Frelsi“. Einn mótmælandi gekk um svæðið með fána merktum „Trump 24“ sem vísar til mögulegs forsetaframboðs Donald Trump árið 2024.

Mótmælin fóru fram sama dag og hollenska lögreglan tilkynnti að þeir myndu grípa til aðgerða til að mótmæla auknum kröfum í starfi sínu. 

Hér má sjá myndband AP fréttastofunnar frá mótmælunum.

Samkvæmt núverandi aðgerðum stjórnvalda eru barir og veitingastaðir lokaðir sem og söfn, leikhús og kvikmyndahúsa auk verslana sem ekki telst nauðsynlegt að halda opnum. Greindum smitum í Hollandi hafði fækkað síðan í byrjun desember þar til þeim fór að fjölga á ný á milli jóla og nýárs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×