Erlent

Útför Desmonds Tutu hafin í Höfðaborg

Heimir Már Pétursson skrifar
Útför Desmonds Tutu fer fram á vegum suður afríska ríksins enda er erkibiskupinn fyrrverandi álitinn þjóðhetja.
Útför Desmonds Tutu fer fram á vegum suður afríska ríksins enda er erkibiskupinn fyrrverandi álitinn þjóðhetja. AP/Nic Bothma

Útför Desmonds Tutu fyrrverandi erkibiskups Suður Afríku hófst í dómkirkjunni í Höfðaborg klukkan átta í morgun. Útförin fer fram með viðhöfn á vegum ríkisins.

Tutu var einn öflugasti baráttumaðurinn fyrir afnámi aðskilnaðarstefnunnar í Suður Afríku og sagði baráttu sína byggja á trúarbrögðum en ekki stjórnmálum. Þannig smaug hann framhjá ströngu eftirliti stjórnvalda með andstöðunni við aðskilnaðarstefnuna.

Hann vann fólk á sitt band með gleðina og hláturinn að vopni og naut virðingar um allan heim fyrir framgöngu sína og hlaut friðarverðlaun Nobels árið 1984. Þúsundir komu að kistu Tutu í dómkirkju heilags Georgs til að votta honum virðingu sína dagana fyrir útförina.

Þúsundir komu að kistu Tutu til að votta honum virðingu sína dagana fyrir útförina þeirra á meðal Thabo Mbeki fyrrverandi forseti Suður Afríku sem hér sést hneigja sig við kistu erkibiskupsins.AP/Nic Bothma

Aðskilnaðarstefnan var við lýði í Suður Afríku frá árinu 1948 til 1991 og átti barátta erkibiskupsins ríkan þátt í að hún var afnumin og Nelson Mandela fyrsti svarti forseti landsins var látinn laus eftir áratugi í fangelsi.

Vegna sóttvarnaráðstafana eru aðeins hundrað manns viðstaddir útförina. Cyril Ramaphosa forseti Suður Afríku mun flytja minningarorðin.


Tengdar fréttir

Desmond Tutu er látinn

Desmond Tutu, fyrrverandi erkibiskup Höfðaborgar í Suður-Afríku og Nóbelsverðlaunahafi, lést í dag, níræður að aldri. Hann er einna þekktastur fyrir baráttu sína gegn aðskilnaðarstefnu Suður-Afríku á sama tíma og Nelson Mandela, fyrrverandi forseti Suður-Afríku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×