Innlent

Skjálfti 3,4 að stærð í morgun

Atli Ísleifsson skrifar
Ferðamenn á nýja hrauninu við Fagradalsfjall í gær.
Ferðamenn á nýja hrauninu við Fagradalsfjall í gær. Vísir/Egill

Skjálfti 3,4 að stærð varð um fjóra kílómetra norður af Krýsuvík klukkan 6:25 í morgun. Annar skjálfti, rétt rúmlega tveir að stærð, var rúmum tveimur mínútum síðar á sömu slóðum.

Þetta kemur fram á vef Veðurstofunnar, en þar segir að mun færri skjálftar hafi mælst á Reykjanesskaga frá miðnætti en á sama tíma í gær.

Nokkuð hefur verið um svokallaða gikkskjálfta í grennd við Kleifarvatn sem fundist hafa á höfuðborgarsvæðinu. Þannig varð einn 3,6 að stærð klukkan 8:26 í gærmorgun. Rekja má gikkskjálfta til aukins þrýstings við Fagrdalsfjall vegna kvikusöfnunar.

Um 2.200 skjálftar mældust á Reykjanesskaganum í gær og hefur nokkuð dregið ur virkni. Frá því að hrinan hófst hafa rúmlega 19 þúsund skjálftar mælst, þar af fjórtán 4,0 eða stærri að stærð.

Veðurstofan hefur varað við að aukin hætta á grjóthruni og snjóflóðum fylgi jarðskjálftum. Eru ferðamenn því hvattir til að sýna aðgát í bröttum hlíðum.


Tengdar fréttir

Grind­víkingar orðnir þreyttir á skjálfta­hrinunni

Jarðskjálftavirkni er enn mikil á Reykjanesi þó hafa jarðskjálftarnir í dag mælst minni að stærð en síðustu daga. Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir segir íbúa ýmsu vana en margir séu þó þreyttir á ástandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×