Umræðan

Hugleiðingar í lok árs 2021

Sigurður Ingi Jóhannsson skrifar

Kæri lesandi.

Þegar þetta er ritað er aðeins farið að rökkva á Þorláksmessu. Daginn er tekið að lengja og helgin að færast yfir samfélagið. Þetta er fallegur og göldróttur tími. Jólaljósin lýsa upp skammdegið. Og þegar veðrið er stillt og fallegt eins og núna fyrir utan gluggann hjá mér þá færist einhver einstök kyrrð yfir sveitina. Kyrrð þessa árstíma er frábrugðin kyrrð annarra tíma ársins því í þessari kyrrð lifna minningar um fyrri jól og ekki síst jól æskunnar.

Framundan eru áramótin með tilheyrandi uppgjöri við hið liðna og þönkum um það sem koma skal. Árið sem nú er að líða frá okkur hefur verið mörgum þungt. Það hefur einkennst af baráttu við heimsfaraldurinn en eins og önnur kosningaár þá hefur það einkennst af grundvallarumræðum um samfélagið og í hvaða átt við viljum að það stefni og hvaða leiðir skuli farnar. Ég get sem formaður Framsóknar, þessa 105 ára gamla flokks, litið sáttur til baka yfir árið. Við í Framsókn nutum í haust góðrar uppskeru eftir vinnu síðustu ára. Sá sigur sem við unnum í kosningunum var mikilvægur og merkilegur. Miðjan, samvinnan og hófsemin vann stórsigur. Og eins og ég hef oft sagt þá er það á miðjunni sem framtíðin ræðst, það er á miðjunni sem það jafnvægi verður til sem framfarir byggja á.

Kosningabarátta Framsóknar gekk út á það að fjárfesta í fólki og hún gekk út á það að við trúum á afl íslensks samfélags til að skapa verðmæti sem leiðir til aukinna lífsgæða allra Íslendinga. Við erum ekki flokkur sem sér djöfla í hverju horni, við erum flokkur sem sér tækifærin. Við sjáum ekki vandamál, heldur verkefni. Og verkefni okkar næstu árin eru mörg og þau eru brýn.

Tækifærin í grænum iðnaði eru mikil og mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem hægt er við uppbyggingu hringinn í kringum landið.

Í stjórnarsáttmála Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs má heyra hjartslátt samfélagsins. Í honum ríkir bjartsýni. Bjartsýni um að framtíðin færir okkur aukin lífsgæði ef rétt er á málum haldið og bjartsýni um að við getum lagað það sem þarf að laga. Í stjórnarsáttmálanum hljómar stefna og hugsjónir Framsóknar.

Framtíðin er spennandi og framtíðin er björt. Þau tækifæri sem blasa við okkur eru mörg og þau eru um allt land. Ferðaþjónustan tekur skjótt við sér þegar aðstæður í ferðamennsku heimsins batna með hækkandi sól. Tækifærin í sjávarútvegi og landbúnaði eru mikil og öflug nýsköpun byggir ofan á þá reynslu og þekkingu sem er til í þessum rótgrónu atvinnugreinum á Íslandi. Tækifærin í grænum iðnaði eru mikil og mikilvægt að stjórnvöld styðji eftir því sem hægt er við uppbyggingu hringinn í kringum landið. Þá er sú sókn sem hafin er í hugverkaiðnaði og skapandi greinum sérstaklega spennandi og mun ef rétt er haldið á spöðunum skapa fjölmörg eftirsóknarverð og verðmæt störf fyrir unga jafnt sem eldri. Sá kraftur og sú hugmyndaauðgi sem býr í listum, sögu og menningu þjóðarinnar okkar felur í sér einstök tækifæri til að skapa verðmæti – bæði fjárhagsleg og samfélagsleg.

Ég ætla að leyfa mér að með vorinu birti ekki aðeins til í bókstaflegum skilningi heldur munum við ná sífellt betri tökum á faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum.

Við erum okkar eigin gæfu smiðir. Það er mikilvægt að við tökum öll ábyrgð á eigin lífi og barna okkar. Það eru hins vegar hagsmunir alls samfélagsins að við búum börnum og ungmennum sterka umgjörð sem samfélag. Það er mikilvægt að stuðningskerfið snúist um hagsmuni og heilbrigði einstaklingsins en ekki kerfið sjálft. Við höfum stigið ákveðin og dýrmæt skref í þá átt á síðustu misserum og munum áfram vinna að því að skapa umgjörð þar sem allir fá tækifæri til að blómstra á sínum forsendum.

Við höfum sýnt það síðustu tvö árin að samstaða og samvinna er þjóðinni í blóð borin. Við höfum tekist á við erfiðar aðstæður og staðið okkur vel. Nú rís sólin fyrr á hverjum degi og færir okkur meira ljós. Ég ætla að leyfa mér að með vorinu birti ekki aðeins til í bókstaflegum skilningi heldur munum við ná sífellt betri tökum á faraldrinum og viðbrögðum okkar við honum. Og ef við göngum til verka bjartsýn og æðrulaus verður sú framtíð sem býður okkar björt og rík af tækifærum.

Ég óska þér, lesandi góður, gleðilegs árs og gæfuríks.

Höfundur er formaður Framsóknar og innviðaráðherra.

Innherji er nýr sjálfstæður áskriftarmiðill innan Vísis sem mun einkum beina kastljósinu að viðskiptalífinu, efnahagsmálum og stjórnmálum. Fyrst um sinn verður efnið endurgjaldslaust og aðgengilegt öllum á Vísi en með tímanum verður einungis hægt að nálgast Innherja gegn greiðslu. Áhersla er lögð á vandaðar fréttir, fréttaskýringar, viðtöl og hlaðvörp auk þess sem Innherja er ætlaður að vera vettvangur skoðanaskipta fólks úr atvinnulífinu og stjórnmálum.




Umræðan

Sjá meira


×