Umræðan

Leyfum okkur að hugsa stærra

Sigurður Hannesson skrifar

Á ferðum okkar um landið á árinu gætti heilt yfir bjartsýni meðal stjórnenda fyrirtækja í ólíkum greinum iðnaðar. Hvar sem við komum, í lítil fyrirtæki eða stór, var sóknarhugur og áform um fjárfestingar. Þetta undirstrikar þann kraft sem er í iðnaði um allt land, þau tækifæri sem stjórnendur vilja sækja og það hvernig útsjónarsemi þarf til þess að bregðast við aðstæðum hverju sinni. Þetta snýr að nýsköpun, vexti og aukinni framleiðni. Tækifærin liggja víða en forsendur þurfa að vera til staðar svo hægt sé að sækja þau. Efnahagsaðstæður og markaðsaðstæður þurfa að vera réttar en sú umgjörð sem stjórnvöld skapa fyrirtækjum þarf einnig að vera hvetjandi. Vonandi sýnir ný ríkisstjórn það í verki að hún sé tilbúin að sækja tækifærin með atvinnulífinu. Ytri aðstæður verða sannarlega krefjandi en þær eru sérstakt umfjöllunarefni sem bíður betri tíma.

Heimatilbúinn óstöðugleiki

Óstöðugleiki í efnahagsmálum birtist í verðbólgu og háum vöxtum. Ástæður óstöðugleika í efnahagslífinu hér á landi eru einkum tvær og báðar eru þær heimatilbúnar. Annars vegar vegna óstöðugleika á húsnæðismarkaði þar sem framboð hefur ekki haldið í við þörf samfélagsins. Hins vegar vegna umgjarðar vinnumarkaðarins. Góðu fréttirnar eru þær að þetta tvennt er hægt að leysa hratt, lausnirnar eru til en viljann og samtakamáttinn þarf til að bæta úr. Á það mun reyna fyrr en síðar.

Þó margar íbúðir hafi verið byggðar undanfarin ár þá hafa of fáar íbúðir verið byggðar miðað við þarfir samfélagsins. Þetta á ekki einungis við á höfuðborgarsvæðinu heldur einnig víða um land. Vandinn liggur fyrst og fremst í skipulagsmálum sveitarfélaga þó fleira komi til. Vandinn felst meðal annars í því að enginn einn ber ábyrgð á málaflokknum. Skipulagsvald og yfirráð yfir lóðum eru fyrst og fremst hjá sveitarfélögum en ríkisvaldið hefur ekki næg úrræði til að grípa inn í og auka uppbyggingu íbúða. Hér þarf að sjá skóginn fyrir trjánum. Um 80% landsmanna búa í eigin húsnæði og vilji enn fleiri stendur til þess sama. Það þarf því að hugsaheildstætt í þessum málaflokki í stað þess að einblína á lítinn hluta markaðarins.

Það er áhugavert að bæði húsnæðismál og vinnumarkaðsmál verða á ábyrgð sama ráðherrans í nýrri ríkisstjórn, Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Umgjörð vinnumarkaðar hér á landi er talsvert frábrugðin því sem gengur og gerist á hinum Norðurlöndunum. Þar ráða útflutningsgreinar för en sérstaklega er horft til samkeppnishæfni þeirra við mat á svigrúmi til launahækkana. Sterkari umgjörð ríkir um samskipti viðsemjenda þar en hér á landi. Heimildir ríkissáttasemjara hafa verið til umræðu undanfarin misseri og gera þarf breytingar á löggjöf. Vert er einnig að minnast á að hið opinbera er fyrirferðarmikið á vinnumarkaðnum þar sem laun og rík réttindi opinberra starfsmanna þrýsta upp launum á einkamarkaðnum. Allt þetta sýnir okkur að það dugar ekki að laga eitt atriði heldur þarf heildstæða nálgun til að ná fram raunverulegum breytingum sem munu skila sér í auknum stöðugleika. Ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins þurfa að taka höndum saman um umbætur þar sem ávinningurinn er efnahagslegur stöðugleiki til lengri tíma. Það viljum við öll.

Það er áhugavert að bæði húsnæðismál og vinnumarkaðsmál verða á ábyrgð sama ráðherrans í nýrri ríkisstjórn, Ingu Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra. Hennar framlag mun ráða miklu um árangur í þessum málaflokkum á næstunni.

Gullhúðun er mein

Í upphafi árs efndu Samtök iðnaðarins til samtals um regluverk og gullhúðun á Framleiðsluþingi SI. Með EES samningnum er Ísland hluti af innri markaði Evrópu og hluti löggjafar Evrópusambandsins (ESB) er innleidd hér á landi. Regluverk ESB felur í sér lágmarkskröfur sem hvert ríki þarf að innleiða. Gullhúðun er þegar gengið er lengra í reglusetningu en lágmarkskröfur ESB segja til um og hefur því miður tíðkast í stórum stíl hér á landi. Þetta þýðir að kostnaður fyrirtækja er meiri hér á landi en annars staðar og dregur þannig úr samkeppnishæfni. Á þessu verður að taka en vandinn er heimatilbúinn og því ætti að vera einfalt að snúa við blaðinu. Vitundarvakning um þessi mál er tímabær en löggjafinn verður að vera vakinn og sofinn yfir samkeppnishæfni Íslands.

Stjórnendur fyrirtækja taka ákvarðanir mun hraðar en stjórnmálamenn og því skiptir meira máli en áður að vel sé staðið að ákvarðanatöku.

Ekkert verður til án orku

Hér á landi hefur ríkt kyrrstaða í raforkumálum um langt skeið þar sem raforkuöflun hélt ekki í við vöxt og viðgang samfélagsins. Sú kyrrstaða var rofin á síðasta kjörtímabili og því hægt að byggja upp hraðar í raforkukerfinu ef viljinn er fyrir hendi. Ný ríkisstjórn verður meðal annars dæmd af því hvernig til tekst að virkja meiri raforku í þágu samfélagsins. Það eru nýmæli í íslensku samfélagi að það sé skortur á raforku. Það tekur langan tíma að undirbúa virkjanir sem segir okkur að staðan verður þröng næstu árin. Raforkuverð hefur hækkað talsvert upp á síðkastið en orkufyrirtækin þurfa að gæta hófs í verðlagningu og sýna ábyrgð með því að selja ekki meiri orku en hægt er að afla. Á sama tíma þarf að virða gerða samninga við stórnotendur til að viðhalda öflugri útflutningsstoð orkusækins iðnaðar. Hér er enn eitt dæmið um heimatilbúinn vanda sem þarf að leysa. Lausnirnar eru til og þær þarf að nýta.

Vaxtartækifæri í hugverkaiðnaði

Hugverkaiðnaður er fjórða útflutningsstoðin og verður sú verðmætasta við lok áratugarins ef rétt verður á málum haldið. Útflutningstekjur greinarinnar hafa tvöfaldast á fimm árum og á munu einnig tvöfaldast næstu fimm árin ef áætlanir ganga eftir. Þetta er gjörbreyting á hagkerfinu. Ekki einungis fjölgar stoðunum sem styður við aukinn efnahagslegan stöðugleika, heldur er þarna komin útflutningsgrein sem byggir verðmætasköpun fyrst og fremst á hugviti en ekki á staðbundnum náttúruauðlindum eins og aðrar útflutningsgreinar. Þetta kallar á gjörbreytta nálgun stjórnvalda sem munu þurfa að huga í enn ríkari mæli að samkeppnishæfni íslensks efnahagskerfis sem og að bjóða atvinnulífi upp á fyrirsjáanleika. Stjórnendur fyrirtækja taka ákvarðanir mun hraðar en stjórnmálamenn og því skiptir meira máli en áður að vel sé staðið að ákvarðanatöku.

Vanræktir innviðir

Við eigum forfeðrum og formæðrum okkar mikið að þakka en þau byggðu upp öflugt samfélag við kröpp kjör. Það var ekki sjálfsagt að byggja upp innviði en það gerðu þau á sínum tíma. Okkur hefur ekki tekist eins vel upp. Á næstu vikum kemur út ný útgáfa af innviðaskýrslu SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Það verður fróðlegt að sjá þar yfirlit um ástand og framtíðarhorfur innviða landsins en í fyrri skýrslum kom fram að staða innviða væri bágborin. Það er mikil freisting að fresta framkvæmdum þegar þarf að bæta rekstur hins opinbera en til lengri tíma kostar það samfélagið stórfé. Fyrirsjáanleiki í framkvæmdum á Íslandi er lítill sem enginn og í nýlegri könnun meðal verktaka kom fram að hægt væri að ná fram gríðarlegum sparnaði með því að auka fyrirsjáanleika. Hægt væri að spara allt að 19 milljarða á ári með stöðugra starfsumhverfi. Það munar um minna og þetta er enn eitt dæmið um heimatilbúinn vanda.

Við eigum forfeðrum og formæðrum okkar mikið að þakka en þau byggðu upp öflugt samfélag við kröpp kjör. Það var ekki sjálfsagt að byggja upp innviði en það gerðu þau á sínum tíma. Okkur hefur ekki tekist eins vel upp.

Bætum lífskjör

Tækifærin eru sannarlega víða og stjórnendur fyrirtækja vinna hörðum höndum að því alla daga ásamt tugþúsundum starfsmanna að sækja þau. Heimatilbúnum hindrunum þarf að ryðja úr vegi til þess að samfélagið geti blómstrað. Lausnirnar eru sannarlega til en stjórnvöld verða að sýna vilja í verki og vinna að umbótum til þess að auka stöðugleika en fyrst og fremst til þess að bæta lífskjör landsmanna til lengri tíma. Með því að stuðla að vexti og viðgangi atvinnugreina, en einnig með því að leyfa okkur að hugsa stærra og sækja ný tækifæri. Það er ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.




Umræðan

Sjá meira


×