Umræðan

Væntingar fjár­festa um mikinn framtíðar­vöxt?

Brynjar Örn Ólafsson skrifar

Í desember endaði hlutfall virðis á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði (CAPE) fyrir íslensku Úrvalsvísitöluna OMXI15 árið 2024 í 30, samanborið við 28,5 í lok árs 2023. V/H hlutfall síðustu tólf mánaða stendur í 31,7 við upphaf nýs árs, en var 28,7 fyrir tólf mánuðum. Til samanburðar var CAPE hlutfall S&P 500 hlutabréfavísitölunnar í Bandaríkjunum 38,1 í desember, samkvæmt hagfræðingnum Robert Shiller. Þessi munur er sérstaklega áhugaverður þegar haft er í huga að nafnávöxtunarkrafa bandarískra langtímaskuldabréfa er 4,4% en um 6,9% á Íslandi.

Í stuttu máli: CAPE er hlutfall sem sýnir hversu mörg ár það myndi taka fyrir hagnað hlutafélaga vísitölunnar að greiða til baka upphaflega fjárfestingu í vísitölunni. Til dæmis gefur CAPE hlutfallið 20 til kynna að það taki 20 ár að endurheimta fjárfestinguna, sem jafngildir væntri árlegri ávöxtun upp á 5%.

Á árinu 2024 lækkaði raunhagnaður félaga í Úrvalsvísitölunni stöðugt fram á haust og náði lágmarki í september en sótti svo á fram til loka árs. Á sama tíma lækkaði Seðlabanki Íslands meginvexti sína um 75 punkta samhliða hjöðnun verðbólga í 4,8%, sem er lægsta gildi hennar síðan í nóvember 2021. Eftir að ávöxtunarkrafa fimm ára óverðtryggðra ríkisskuldabréfa hafði lækkað mest í um 6,4% endaði krafan nálægt upphafsgildi ársins eða nær 7%.

Þrátt fyrir að CAPE byggi á sögulegu meðaltali hagnaðar, leiðréttu fyrir hagsveiflum, gefur það einnig til kynna væntingar fjárfesta til framtíðar. Spurning til lesenda: Þar sem sögulegt meðaltal CAPE fyrir Úrvalsvísitöluna er 21, hversu mikið þarf hagnaður hlutafélaga að vaxa að jafnaði árlega næstu 10 árin, að því gefnu að markaðsvirði haldist óbreytt, til að réttlæta núverandi CAPE upp á 30?

Svar: Raunhagnaður félaga í vísitölunni þarf að vaxa um 8,1%, ásamt 2,5% verðbólgu á hverju ári næsta áratug.


Höfundur er hagfræðingur.

Nánar um CAPE:

Frá árinu 2016 hefur hagfræðingurinn Brynjar Örn Ólafsson með aðstoð og gögnum frá Kóða og Nasdaq Iceland tekið að sér að reikna og birta mánaðarlega opinberlega tímaraðir fyrir svokallað CAPE (e. Cyclically Adjusted Price to Earnings) fyrir Úrvalsvísitöluna OMXI10 sem hliðstæðu við útreikninga Dr. Robert J. Shiller fyrir S&P 500 vísitöluna.

Hlutfallið sýnir virði Úrvalsvísitölunnar á móti hagsveifluleiðréttum hagnaði þeirra félaga sem mynda vísitöluna. Hefðbundið VH-hlutfall miðast við hagnað síðastliðinna tólf mánaða og í þeim tilfellum sem miklar breytingar verða á hagnaði getur reynst vandasamt að átta sig á réttmæti verðlagningar. Í tilfelli CAPE er notast við verðlagsleiðréttan sögulegan hagnað sem getur gefið vísbendingu um réttmæti verðlagningar á móti hagnaði í eðlilegu árferði.




Umræðan

Sjá meira


×