Erlent

Takmarka skammtastærðina til að bregðast við kartöfluskorti

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Japanir verða að sætta sig við að geta ekki stækkað máltíðina næstu viku.
Japanir verða að sætta sig við að geta ekki stækkað máltíðina næstu viku.

Neytendur í Japan munu aðeins geta keypt lítinn skammt af frönskum kartöflum á McDonald's í næstu viku vegna kartöfluskorts. Skortinn má meðal annars rekja til flóða í Kanada og áhrifa kórónuveirufaraldursins á aðfangakeðju heimsins.

Forsvarsmenn skyndibitakeðjunnar sögðust hafa gripið til þessa ráðs til að tryggja að allir viðskiptavinir fengju þó einhverjar franskar með hamborgurunum sínum. 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem McDonald's í Japan selur aðeins litla skammta af frönskum en gripið var til sömu aðgerða í desember árið 2014 þegar 20 þúsund hafnarstarfsmenn 29 hafna í Bandaríkjunum stóðu í verkfallsaðgerðum.

Fleiri en 3.000 McDonald's staðir eru reknir í Japan og eru þeir stærsti erlendi kaupandi frosinna kartafla frá Bandaríkjunum. Á meðan hafnarstarfsmennirnir ræddu kaup og kjör neyddist keðjan til að flytja inn þúsund tonn af frosnum frönskum kartöflum loftleiðina.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×