Viðskipti innlent

Telur líklegt að toppnum hafi verið náð

Fanndís Birna Logadóttir skrifar
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka. 
Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka.  Vísir/Egill

Verðbólga mælist nú 5,1 prósent og hefur ekki mælst hærri í rúm níu ár. Fasteignaliðurinn vegur þungt í mælingunni en aðrir þættir ýta einnig undir verðbólgu. Aðalhagfræðingur Íslandsbanka telur að toppnum hafi verið náð.

Mæling Hagstofu Íslands sem birt var í morgun sýnir að verðbólga síðastliðna tólf mánuði mælist nú 5,1 prósent en vísitala neysluverðs hækkaði um 0,45 prósent milli mánaða. Verðbólga hefur ekki mælst meiri frá því í júní 2012. Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir mælinguna ekki koma á óvart.

„Mælingin er svo sem í takt við spár og væntingar en spár voru á þessu bili, allt frá 0,3 prósent upp í 0,6 prósent,“ segir Jón Bjarki.

„Þarna spilar fasteignaverðið nokkuð stóra rullu líkt og fyrri mánuði en góðu heilli er nú að draga úr hækkunum þar, þannig að það er vissulega jákvætt og við teljum ágætar líkur á að þetta gæti verið svolítið toppurinn í verðbólgunni,“ segir Jón Bjarki.

Að fasteignaliðnum undanskildum er verðbólgan um þessar mundir 3,3 prósent og því ljóst að fasteignaverð vegi þungt í mælingunni.

„Hin mælingin, það er að segja án húsnæðis, er þó til marks um að það sé svona almennt nokkur þrýstingur á verðlag þessa dagana,“ segir Jón Bjarki.

Aðrir þættir sem hafa ýtt undir verðbólgu eru til að mynda framboðs hnökrar erlendis og innlendar kostnaðarhækkanir.

„Maður hefði meiri áhyggjur ef það væri ekki hægt að skýra að minnsta kosti töluverðan hluta verðbólgunnar núna með þessum tímabundnum þáttum. Meira framboð af húsnæði ætti að draga úr þrýstingnum þar og þessir tímabundnu þættir úti draga líka úr þeim þrýstingi, það er að segja að þeir leysast,“ segir Jón Bjarki.

Nokkuð langt er í næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans og á Jón Bjarki von á að vextir haldist óbreyttir þangað til, þó að verðbólgan sé mikil að svo stöddu.

„Hún er vissulega mikil og er auðvitað ástæða þess að Seðlabankinn er í vaxtahækkunarferli en góðu heilli þá verður þessi toppur vonandi tímabundinn, en ef það verður ekki, ef það fer að grafa um sig viðvarandi verðbólguþrýstingur, þá er það meira áhyggjuefni.“


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×