Erlent

Mótmæltu nýjum lögum um takmarkað eignarhald erlendra aðila á fjölmiðlum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Þúsundir mótmæltu við forsetahöllina í Varsjá, í Kraká og víðar.
Þúsundir mótmæltu við forsetahöllina í Varsjá, í Kraká og víðar. epa/Radek Pietruszka

Þúsundir mótmæltu nýjum fjölmiðlalögum í Póllandi í gær og fjöldi fólks mætti fyrir utan forsetahöllina til að þrýsta á forsetann Andrzej Duda að neita að undirrita lögin.

Lögin voru afgreidd með hraði og samþykkt í þinginu á föstudag. Þau fela í sér verulega takmörkun á erlendu eignarhaldi á fjölmiðlum í Póllandi og munu hafa hvað mest áhrif á fréttastöðina TVN24, sem er í eigu bandaríska fyritækisins Discovery Inc.

„Þetta snýst ekki bara um eina stöð,“ sagði Rafal Trzaskowski, borgarstjóri Varsjár og fyrrverandi forsetaframbjóðandi. „Næst verður það ritskoðun internetsins, tilraun til að skrúfa fyrir allar sjálfstæðar uppsprettur upplýsinga... en við munum ekki leyfa því að gerast.“

Stjórnvöld í Póllandi hafa nú um nokkurt skeið verið upp á kant við önnur aðildarríki Evrópusambandsins vegna ýmissa umdeildra lagasetninga, meðal annars hvað varðar dómstóla, réttindi hinsegin fólks og þungunarrof.

Heima fyrir hafa áhyggjur verið uppi um aðför að fjölmiðlum frá því að ríkisolíufyrirtækið PKN Orlen greindi frá því í fyrra að það væri að taka yfir þýskan útgefanda fjölda staðarmiðla.

Fleiri en 1,5 milljón manna hefur skrifað undir undirskriftalista TVN24 til stuðnings. Þá hafa stjórnvöld í Bandaríkjunum lýst yfir áhyggjum af þróun mála og hvatt forsetann til að standa vörð um tjáningafrelsið.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×