Innlent

Verk­efni lög­reglu fjöl­breytt á Twitter-mara­þon kvöldi

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt. 
Lögreglan hafði í nógu að snúast í nótt.  Vísir/Vilhelm

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu veitti almenningi innsýn í störf sín á Twitter í nótt, þar sem hún tísti um hvert verkefni og tilkynningu sem henni barst. Talsvert var um að vera og voru verkefnin samtals 73. Töluvert var um ölvun og ofbeldi. 

„Við viljum bara sýna fólki innsýn í störf lögreglunnar og sýna hvað störf lögreglunnar eru fjölbreytileg og þess vegna verður mjög áhugavert að fylgjast með Twitter í kvöld,“ sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu í kvöldfréttum Stöðvar 2 í gær. 

Jú, verkefni lögreglu reyndust fjölbreytt allt frá tilkynningu um flutningabíl með heyrúllur í hættu í þungri umferð að tilkynningum um heimilisofbeldi.

Færslur lögreglu voru alls 80 í gærkvöld og í nótt en 73 tilkynningar eða verkefni. Nokkur umferðaróhöpp urðu, þar á meðal þriggja bíla árekstur, árekstur og afstungu, og nokkur umferðaróhöpp þar sem ökumaður var grunaður um ölvun.

Lögreglan tísti á tíunda tímanum í gærkvöldi að hún hafi séð rásandi bifreið á akstri og talið ástæðu til að kanna málið. Mikinn áfengisþef hafi lagt af ökumanninum og hann átt erfitt með að tjá sig. Sá var talsvert ölvaður og í ljós kom að hann hafði aldrei fengið bílpróf.

Lögreglu barst þá tilkynning um ölvaðan einstakling sem gekk inn á veitingastað, datt á borð og sofnaði í kjölfarið. Þetta var ekki eina skiptið sem lögregla var kölluð til í nótt vegna sofandi manns, en leigubílstjóri leitaði aðstoðar lögreglu þegar farþegi sofnaði í aftursætinu hjá honum og bílstjóranum tókst ekki að vekja hann. 

Ungt par varð fyrir líkamsárás í nótt og er gerandans nú leitað. Þá var yfirstandandi heimilisofbeldi stöðvað í nótt og einn fluttur í fangageymslu. Óskað var eftir aðstoð lögreglu þar sem maður sást reyna að draga konu inn í bíl gegn vilja hennar. Lögregla fór á vettvang. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×