Viðskipti erlent

Grindr fær risasekt í Noregi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Grindr er vinsælt stefnumótaforrit.
Grindr er vinsælt stefnumótaforrit. Avishek Das/SOPA Images/LightRocket via Getty Images)

Norska persónuverndarstofnunin Datatilsynet hefur sektað eigendur stefnumótusmáforritsins Grindr um 65 milljónir norskra króna, tæplega milljarð íslenskra króna Um er að ræða hæstu sekt sem stofnunin hefur beitt til þessa.

Vakin er athygli á niðurstöðu Datatilsynet á vef Persónuverndar, systurstofnun norsku stofnunarinnar hér á landi. Þar segir að sektin sé til komin vegna þess að Grindr hafi veitt þriðja aðila aðgang að gögnum notenda forritsins í markaðssetningarskyni, án samþykkis þeirra.

Meðal þeirra upplýsinga sem Grindr miðlaði voru GPS staðsetning, IP-tala, auglýsingaauðkenni, aldur, kyn og sú staðreynd að viðkomandi væri notandi að Grindr.

Hægt var að bera kennsl á notendur og viðtakendur gátu deilt gögnunum frekar. Um viðkvæmar persónuupplýsingar er að ræða þar sem upplýsingarnar vörðuðu meðal annars kynhegðun notenda, segir á vef Persónuverndar.

Grindr er máforrit sem ætlað er fyrir samkynhneigða svo þeir geti kynnst öðrum samkynhneigðum.

Rannsókn Datatilsynet beindist að tæplega tveggja ára tímabili frá júlí 2018 til apríl 2020 en þá breytti Grindr því hvernig staðið væri að því að biðja um samþykki fyrir deilingu upplýsinga í forritinu.

Alls nemur sektin um einum milljarði íslenskra króna, en hún var lækkuð úr 100 milljónum norskum krónum, tæplega einum og hálfum milljarði íslenskra króna, með vísan í fjárhagsstöðu félagsins og þess að Grindr hafi bætt úr fyrrgreindum annmörkum á hugbúnaðinum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×