Innlent

Eig­andi dýrasta stólsins fundinn og stóllinn fer á upp­boð

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Heiða Eiríksdóttir prófar stólinn sem mun vonandi skila Ljósinu einhverjum tekjum eftir uppboðið.
Heiða Eiríksdóttir prófar stólinn sem mun vonandi skila Ljósinu einhverjum tekjum eftir uppboðið. vísir/sigurjón

Stóllinn sem gerði allt vit­laust í Góða hirðinum í síðustu viku fer á upp­boð á morgun. Fyrr­verandi eig­andi stólsins fannst og bað um að á­góði sölunnar rynni allur til Ljóssins endur­hæfingar­mið­stöðvar fyrir krabba­meinsveika.

Stóllinn komst í fréttir í síðustu viku fyrir að vera dýrasta vara sem Góði hirðirinn hefur sett á sölu frá upp­hafi.

Hann er dönsk hönnunar­vara frá 6. ára­tugnum, eftir hönnuðinn Arne Vodd­er, og var settur á hálfa milljón króna í vef­verslun Góða hirðisins.

Ó­hætt er að segja að svo hátt verð á húsgagni í nytja­vöru­verslun hafi farið fyrir brjóstið á mörgum.

Stóra stólamálið - hitamál fyrir mörgum.vísir

Missti konuna sína úr krabbameini

En fréttir af málinu urðu til þess að fyrr­verandi eig­andi stólsins gaf sig fram við Góða hirðinn.

„Hann vissi alveg að hann væri með verð­mæti í höndunum en vildi koma þeim í gott mál­efni og því kom hann til okkar, stóllinn,“ segir Ruth Einars­dóttir, rekstrar­­stjóri Góða hirðisins.

Eftir að eig­andinn fannst var á­kveðið að leyfa honum að velja mál­efni sem á­góðinn af sölu stólsins rynni til.

„Og þar sem hann missti konuna sína úr krabba­meini þá valdi hann Ljósið. Og allur á­góðinn af stólnum mun því renna til Ljóssins,“ segir Ruth.

Stóllinn fer því á upp­boð klukkan sjö í fyrra­málið. Og lág­marks­upp­hæðin er dá­lítið minni en upp­haf­lega verðið; fyrsta boð er upp á 95 þúsund krónur.

„Og það geta þá allir boðið í stólinn. Þetta verður sem sagt sett fram á Góða hirðis síðunni á Face­book. Og fólk gerir þá bara boð í kommenta­kerfinu.“

Uppboðið verður opið fram til næsta mánudags.

Allur ágóði af sölu húsgagna og annarra vara í Góða hirðinum rennur til góðra málefna. vísir/sigurjón

Líklega frumlegasta styrktarleiðin

Allt er þetta gert í sam­starfi við Ljósið sem er eðli­lega himin­lifandi með út­komuna í stóra stóla­málinu.

„Við höfðum nú bara séð hann hérna á fjöl­miðlum og það ver ekki fyrr en bara núna á dögunum sem að við fréttum af þessu skemmti­lega verk­efni og tókum því náttúru­lega bara fagnandi,“ segir Heiða Ei­ríks­dóttir hjá Ljósinu.

Ætli þetta sé ekki með svona frum­legri styrktar­leiðum sem þið hafið fengið?

„Jú ég man ekki til að við höfum fengið svona styrki hingað til án þess að ég þori að full­yrða það. Það er nú alveg ýmis­legt sem að kemur svona skemmti­legt á okkar borð,“ segir Heiða.

Reikningsupplýsingar Ljóssins verða einnig birtar við uppboðsfærsluna á morgun og geta þeir sem vilja leggja félaginu lið en hafa ekki áhuga á stólnum því lagt frjáls framlög inn á hann. 

Reikningurinn er: 0130-26-410420 og kennitala félagsins er: 590406-0740.


Tengdar fréttir

Dýrasta vara Góða hirðisins frá upp­hafi er slitinn stóll

Danskur hönnunar­stóll er orðin dýrasta vara sem Góði hirðirinn hefur sett á sölu frá upp­hafi. Ger­semin barst nytja­vöru­markaðnum ó­vænt í gám frá Sorpu og gerir rekstrar­stjóri hennar ráð fyrir að eig­andi stólsins hafi ekki áttað sig á hverju hann væri að henda.

Góði hirðirinn á­fram á Hverfis­götu

Rekstri verslunar Góða hirðisins á Hverfisgötu í Reykjavík verður fram haldið, en verslunin var opnuð í tilraunaskyni síðastliðinn nóvember þar sem kannað var hvort rekstrargundvöllur væri fyrir hendi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×