Sport

Keilari ársins nýkomin með íslenskan ríkisborgararétt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Marika Katarina E. Lönnroth og Gunnar Þór Ásgeirsson eru keilarar ársins 2021.
Marika Katarina E. Lönnroth og Gunnar Þór Ásgeirsson eru keilarar ársins 2021. Keilusamband Íslands

Keilusamband Íslands KLÍ hefur útnefnt þau Mariku Katarinu E. Lönnroth og Gunnar Þór Ásgeirsson sem keilara ársins hjá konum og körlum.

Marika Katarina E. Lönnroth, sem fékk íslenskan ríkisborgararétt fyrir stuttu hefur heldur betur sett svip á kvennakeiluna hér á landi.

Hún náði næst besta árangri kvenna á Reykjavíkurleikunum í upphafi árs en hún endaði í fimmtánda sæti með 207,3 í meðaltal. Það gaf ákveðin fyrirheit fyrir Íslandsmót einstaklinga sem fram fór í mars á þessu ári en þar stóð Marika uppi sem Íslandsmeistari kvenna í keilu 2021.

Hún kláraði keppnistímabilið 2020 til 2021 með liði sínu KFR Valkyrjum með því að landa bæði Íslands- og Bikarmeistaratitli deildarliða. Marika lauk síðan árinu með enn einum Íslandsmeistaratitli þegar hún og Jón Ingi Ragnarsson úr KFR urðu Íslandsmeistarar para 2021.

Gunnar Þór Ásgeirsson hefur heldur betur spilað sig upp sem einn besti keilari landsins. Gunnar Þór varð í öðru sæti á Íslandsmóti einstaklinga í ár og varð með liði sínu ÍR PLS bæði Íslands- og Bikarmeistari deildarliða.

Gunnar Þór fór til keppni á Evrópumóti landsmeistara sem fulltrúi Íslands og náði þar stórglæsilegum árangri og endaði þar í 5. sæti örfáum pinnum frá því að komast í úrslit mótsins. Er hann 3. Íslendingurinn sem nær í efstu 8 á því móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×