Fótbolti

Ron­aldo klúðraði í lokin og eyði­merkur­gangan heldur á­fram

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo fórnar höndum í tapinu gegn Kawasaki Frontale í dag.
Cristiano Ronaldo fórnar höndum í tapinu gegn Kawasaki Frontale í dag. Getty/Yasser Bakhsh

Cristiano Ronaldo þarf enn að bíða eftir fyrsta stóra titlinum með Al Nassr eftir að sádiarabíska liðið tapaði 3-2 gegn Kawasaki Frontale frá Japan í undanúrslitum Meistaradeildar Asíu í dag.

Ronaldo komst reyndar í dauðafæri seint í uppbótartíma og gat þá jafnað metin en náði ekki að koma skoti á markið eftir að hafa farið framhjá markverðinum. Vonbrigðin leyndu sér ekki hjá Portúgalanum sem eftir sinn stórkostlega feril í Evrópu hefur ekki reynst eins sigursæll á þeim þremur leiktíðum sem hann hefur spilað með Al Nassr.

Tatsuya Ito skoraði fyrsta mark leiksins með frábæru skoti en Sadio Mané jafnaði metin fyrir Al Nassr í 1-1 á 28. mínútu. Japanarnir komust í 3-1 á 76. mínútu, eftir mörk frá Yuto Ozeki og Akihiro Ienaga, áður en Al Nassr minnkaði muninn á 87. mínútu með marki Aiman Yahya en þar við sat.

Al Nassr, sem er í 3. sæti sádiarabísku úrvalsdeildarinnar, er því úr leik og hefur ekki unnið stóran titil síðan Ronaldo kom í janúar 2023. Eini titill liðsins eftir komu Portúgalans var sigur í Arab Club Champions Cup, móti sem haldið var á ný árið 2023 eftir nokkurra ára hlé en var svo aftur tekið af dagskrá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×