Körfubolti

Grindvíkingar segjast ekki hafa hlustað á leikhlé Stjörnumanna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, kannast ekki við að Grindvíkingar hafi hlustað á leikhlé Stjörnumanna í leik liðanna í Subway-deild karla um þarsíðustu helgi.
Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, kannast ekki við að Grindvíkingar hafi hlustað á leikhlé Stjörnumanna í leik liðanna í Subway-deild karla um þarsíðustu helgi. vísir/bára

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari Grindavíkur, segir að Grindvíkingar hafi ekki hlustað á leikhlé Stjörnumanna í leik liðanna í Subway-deild karla á dögunum.

Grindavík vann deildarleik liðanna laugardaginn 4. desember, 92-88. Liðin mættust aftur í átta liða úrslitum VÍS-bikars karla í gær.

Í viðtali við RÚV fyrir leikinn sagðist Arnar Guðjónsson, þjálfari Stjörnunnar, ekki vilja vera með hljóðnema á sér því Grindvíkingar hafi hlustað á leikhlé hans í deildarleiknum um þarsíðustu helgi.

„Mér var bent á að Grindvíkingar hefðu örugglega hlustað á leikhléið okkar síðast sem er bara klókt hjá þeim. Ég ætla ekki að brenna mig á því aftur. Ef þeir ná að nýta það sér í hag vil ég það ekki,“ sagði Arnar í viðtalinu við RÚV.

„Þetta er ekkert það flókið. Það truflar mig ekki að vera með þetta en um leið og þetta hugsanlega, ég veit ekki hvort það sé þannig, gert það að verkum að minnka líkur okkar á að vinna ætla ég ekki að gera þetta.“

Í samtali við Vísi í dag hafnaði Daníel því að Grindvíkingar hefðu legið á hleri í leikhléum Stjörnumanna. „Nei, nei,“ sagði Daníel og lét þar við sitja.

Stjarnan vann leikinn í gærkvöldi, 85-76, og komst þar með í undanúrslit VÍS-bikarsins.


Tengdar fréttir

Arnar Guðjónsson: Við erum bara í þeirri stöðu að við þurfum að berjast um sæti í úrslitakeppninni

Þjálfari Stjörnunnar var að vonum kampakátur í leikslok enda eru hans menn komnir í undanúrslit í VÍS bikarnum eftir mjög góðan sigur á Grindvíkingum í kvöld 85-76. Eftir jafnan fyrri hálfleik þá tóku Stjörnumenn völdin í leiknum og sigldu honum heim nánast örugglega. Hvað var það sem hans menn gerðu vel í kvöld. Þeir t.d. héldu Ivan Aurrecoechea í tveimur stigum í seinni hálfleik en það hlýtur að hafa verið áhersla lögð á að stöðva hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×