Fótbolti

Samuel Eto'o kom ríkjandi forseta úr embætti og er tekinn sjálfur við

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Samuel Etoo á tíma sínum sem leikmaður Internazionale.
Samuel Etoo á tíma sínum sem leikmaður Internazionale. EPA/ALI HAIDER

Kamerúnska knattspyrnugoðsögnin Samuel Eto'o er kominn í valdastöðu í heimalandinu.

Eto'o er einn allra besti knattspyrnumaðurinn í sögu Kamerún og nú um helgina var hann kjörinn nýr forseti kamerúnska knattspyrnusambandsins.

Eto'o fékk 43 atkvæði á móti 31 hjá andstæðingi sínum. Sá heitir Seidou Mbombo Njoya og var ríkjandi forseti sambandsins. Njoya er einnig varaforseti afríska knattspyrnusambandsins.

Eto'o talaði um mikilvægi þess að fá fótboltamenn inn í pólitíkina í kamerúnskum fótbolta. Það stendur mikið til hjá sambandinu því Kamerún heldur Afríkukeppni landsliða eftir aðeins einn mánuð.

Hinn fertugi Eto'o fær mjög krefjandi starf í fangið en í gegnum tíðina hefur verið mikið um innbyrðis deilur, óstjórn og ásakanir um spillingu hjá kamerúnska sambandinu.

Eto'o hafði reyndar verið lýstur vanhæfur fyrir kjörið af því að hann er einnig spænskur ríkisborgari en þeirri reglu var síðan hent út fyrir kosningarnar. Margir fyrrum leikmenn lýstu yfir stuðningi við hann og Eto'o lofaði því að koma spillingunni út úr kamerúnskum fótbolta.

Afríkukeppnin fer fram í Kamerún frá 9. janúar til 6. febrúar næstkomandi. Kamerún átti að halda hana 2019 en missti hana þá vegna áhyggja af öryggismálum og óstjórnunnar í undirbúningi keppninnar.

Samuel Eto'o var á sínum tíma einn besti framherji heims og átti mörg góð ár hjá liðum eins og Barcelona og Internazionale Milan. Hann vann þrennuna meðal annars tvö tímabil í röð, fyrst 20009 með Barcelona og svo 2009-10 með Internazionale.

Eto'o varð fjórum sinnum kosinn besti knattspyrnumaður Afríku og hann varð tvisvar Afríkumeistari og einu sinni Ólympíumeistari með kamerúnska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×