Fótbolti

Segir sína menn hafa stolið þremur stigum

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tomas Tuchel er þjálfari Chelsea
Tomas Tuchel er þjálfari Chelsea EPA-EFE/Neil Hall

Thomas Tuchel, þjálfari toppliðs ensku úrvalsdeildarinnar, sagði sína menn í Chelsea hafa verið einkar heppna í 2-1 sigri þeirra á Watford í kvöld. Tuchel gekk svo langt að segja að lið hans hafi rænt stigunum þremur í kvöld.

„Við vorum heppnir, við verðum að viðurkenna það. Stundum þarftu á því að halda. Við náðum ekki að spila okkar besta leik í kvöld og vorum ekki tilbúnir sem er undantekning frá reglunni,“ sagði Tuchel í viðtali eftir leik.

„Það skánaði aðeins í síðari hálfleik en við fengum á okkur alltof mörg færi í fyrri hálfleik og sköpuðum ekki nægilega mikið sjálfir. Við skoruðum úr færunum tveimur sem við fengum, við vorum mjög heppnir að komast í burtu með þrjú stig,“ bætti Þjóðverjinn við.

„Mögulega fann ég ekki réttu leikaðferðina, mér leið eins og við værum ekki tilbúnir í löngu boltana sem Watford sendi ítrekað fram völlinn. Þegar við unnum boltann áttum við í vandræðum með að spila okkur í gegnum pressuna þeirra. Við vorum í vandræðum sem einstaklingar og sem lið.“

„Mér leið aldrei eins og við værum með stjórn á leiknum en síðari hálfleikur var aðeins skárri. Við sýndum rétt hugarfar og ég vil ekki vera of harður en við verðum að viðurkenna að Watford spilaði mjög vel,“ sagði Tuchel að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×