Fótbolti

Zlatan sagði Mbappé að fara til Real en ráð­lagði PSG að selja hann ekki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Zlatan og Mbappé skömmu eftir að Svínn gaf Frakkanum unga mikilvæg ráð varðandi framtíðina.
Zlatan og Mbappé skömmu eftir að Svínn gaf Frakkanum unga mikilvæg ráð varðandi framtíðina. Getty Images

Hinn fertugi Zlatan Ibrahimović getur verið skondinn þegar sá gállinn er á honum. Hann hefur nú lagt orð í belg varðandi framtíð hins franska Kylian Mbappé.

Þrátt fyrir ungan aldur hefur Mbappé verið í sviðsljósinu í rúman hálfan áratug eða svo. Hann skaust upp á stjörnuhimininn í frábæru liði Monaco árið 2016. 

Eftir að hafa orðið Frakklandsmeistari með liðinu var hann keyptur til París Saint-Germain fyrir metfé og sumarið 2018 varð hann heimsmeistari er Frakkland vann HM.

Nú stefnir í að Mbappé sé á leið frá PSG en allt bendir til þess að hann semji við spænska stórveldið Real Madríd næsta sumar. 

Zlatan – sem lék lengi vel með PSG - hefur nú opinberað að hann hafi sagt franska sóknarmanninum að hann ætti að semja við Real því umhverfið þar væri skipulagðara og leikmaðurinn þyrfti á því að halda.

„Það er satt að ég sagði honum að yfirgefa París. Mbappé þarf meira skipulag í kringum sig, eins og er hjá Real Madríd. En svo sagði ég forseta PSG að félagið ætti alls ekki að selja hann,“ sagði Zlatan og brosti sínu breiðasta.

Hvort eitthvað sé til í orðum Svíans er alls óvíst en það virðist sem Mbappé ætli að fara að hans orðum. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×