Skoðun

Hvað getur hið opin­bera gert til að draga úr verð­bólgunni?

Ólafur Stephensen skrifar

Verðbólgan hefur náð sér á strik undanfarna mánuði. Hún mældist 4,5% í síðasta mánuði og ýmsar spár gera ráð fyrir að hún verði um eða yfir 5% í þessum mánuði. Í Peningamálum Seðlabankans, sem komu út í vikunni, er því spáð að verðbólga verði yfir 4% langt fram á næsta ár, með öðrum orðum vel yfir markmiði bankans um 2,5%.

Hækkanir á húsnæðismarkaði vega sem fyrr þungt í verðbólgunni, en sömuleiðis er talsverð innflutt verðbólga eins og það er kallað, ekki sízt vegna gífurlegra hækkana á flutningskostnaði og hrávöruverði á alþjóðamörkuðum, sem eru flestar með beinum eða óbeinum hætti afleiðing heimsfaraldursins. Birgjar margra innflutningsfyrirtækja hafa hækkað verð og verð á aðföngum til innlendrar framleiðslu hafa sömuleiðis hækkað mikið. Þótt fyrirtæki leggi mikið á sig til að finna leiðir til að lækka annan kostnað og komast hjá því að velta hækkunum út í verðlagið, verður ekki horft framhjá þessari alþjóðlegu þróun.

Verðbólgan skerðir hag jafnt fyrirtækja og almennings. Sama á við um vaxtahækkanir, sem eru helzta tæki Seðlabankans til að hafa hemil á verðbólgunni.

Stytt í verndaraðgerð fyrir innlenda framleiðendur

Við þessar aðstæður ættu stjórnvöld því væntanlega að gera allt sem þau geta til að halda verðlagi niðri. Sumar ákvarðanir þeirra hafa þó áhrif í þveröfuga átt. Undir lok síðasta árs ákvað Alþingi til dæmis að breyta nýju fyrirkomulagi við útboð tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur, sem hafði reynzt neytendum til hagsbóta, tímabundið aftur til fyrra horfs. Breytingin var gerð í þeim yfirlýsta tilgangi að hækka verð á innfluttum búvörum og auðvelda þar með innlendum framleiðendum að halda uppi verði á sinni vöru. Þetta óhagstæða útboðsfyrirkomulag á að gilda fram í ágúst á næsta ári. Þegar Alþingi kemur saman hefur það tækifæri til að stytta þann tíma og stuðla þannig að lækkun verðlags.

Efnt loforðin um hagstæðara regluverk og skattaumhverfi

Allir ríkisstjórnarflokkarnir gáfu fyrirheit fyrir kosningar um einfaldara og hagstæðara regluverk og skattaumhverfi fyrirtækja, ekki sízt þeirra minni og meðalstóru. Mest myndi fyrirtækin muna um lækkun á tryggingagjaldinu sem lagt er á launagreiðslur. Þegar þingið kemur saman til að afgreiða fjárlagafrumvarp hefur stjórnarmeirihlutinn tækifæri til að efna kosningaloforðin og létta reglubyrði og álögum af fyrirtækjunum. Það myndi auðvelda þeim að velta ekki kostnaðarhækkunum út í verðlagið.

Lækkað fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði

Líkt og Félag atvinnurekenda hefur ítrekað bent á, eru sveitarfélögin ekki stikkfrí í umræðunni um efnahagslegan stöðugleika. Þau hafa innheimt milljarða á milljarða ofan í aukna skatta af fyrirtækjum vegna hækkana fasteignamats, sem fasteignaskattar á atvinnuhúsnæði eru reiknaðir af. Þannig hækkuðu skattgreiðslur fyrirtækjanna til sveitarfélaga um tæplega 70% á sex árum! Þótt sum sveitarfélög hafi orðið við áskorun Félags atvinnurekenda um að lækka álagningarprósentuna á næsta ári til að vega upp á móti hækkunum fasteignamats, virðist algengt að álagning fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði í stærri sveitarfélögum landsins hækki um 7-8% á næsta ári, vel umfram verðbólgu. Frá því eru heiðarlegar undantekningar, eins og í Vestmannaeyjum þar sem tekjur bæjarins af atvinnuhúsnæði munu lækka á milli ára. Fjárhagsáætlanir sveitarfélaga hafa víðast hvar ekki verið afgreiddar og enn er tækifæri fyrir sveitarstjórnarmenn að axla ábyrgð og tryggja að hækkun skattbyrði fyritækja vegna atvinnuhúsnæðis verði hófleg. Það myndi líka hjálpa fyrirtækjunum að halda verðlagi stöðugu.

Höfundur er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda.




Skoðun

Sjá meira


×