Viðskipti innlent

ESA segir engar sönnur fyrir á­sökunum Arion banka

Eiður Þór Árnason skrifar
Arion banki hélt því fram að Íslandsbanki og Landsbankinn hafi fengið ígildi ríkisaðstoðar.
Arion banki hélt því fram að Íslandsbanki og Landsbankinn hafi fengið ígildi ríkisaðstoðar. Vísir

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur komist að þeirri niðurstöðu að engin ríkisaðstoð hafi verið veitt Landsbankanum og Íslandsbanka. 

Í júní árið 2019 barst ESA kvörtun frá Arion banka þar sem það var staðhæft að íslenska ríkið hafi veitt samkeppnisaðilunum tveimur ósanngjarnt forskot með því að samþykkja staðla sem aðrir markaðsaðilar hefðu ekki aðgang að.

Þar með byggju Landsbankinn og Íslandsbanki við lægri arðsemiskröfur en aðrir íslenskir bankar sem væru í einkaeigu.

Bankasýsla ríkisins njóti sjálfstæðis

Fram kemur í tilkynningu frá ESA að stofnunin hafi nú lokað málinu. Arion banki hélt því fram að með því að gera ekki kröfu um að ríkisbankarnir tveir myndu skila arðsemi eigin fjár, sem er mæld með því að deila hagnaði eftir skatta með eigin fé, í samræmi við markaðskjör væri ríkið að veita ríkisbönkunum ígildi ríkisaðstoðar.

Að sögn ESA bendir ekkert til að Bankasýsla ríkisins, sem fer með eignarhluti ríkisins í bönkunum tveimur, hafi sett þeim kröfur um arðsemi eigin fjár sem væru lægri en gengur og gerist hjá öðrum einkareknum bönkum á EES-svæðinu. Sömuleiðis hafi frumrannsókn leitt í ljós að ekkert benti til annars en að Bankasýsla ríkisins starfi sjálfstætt gagnvart fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

„Að mati ESA er ekkert sem færir sönnun fyrir fullyrðingum Arion banka um að Landsbankinn og Íslandsbanki hafi hlotið ólögmæta ríkisaðstoð. ESA hefur því lokað málinu,“ segir í tilkynningu frá eftirlitsstofnuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×