Handbolti

„Maður stundum sér ekki þegar hún er farin“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir er illviðráðanleg einn á móti einum enda fáir leikmenn með eins mikinn sprengikraft og hún.
Haukakonan Elín Klara Þorkelsdóttir er illviðráðanleg einn á móti einum enda fáir leikmenn með eins mikinn sprengikraft og hún. Vísir/Hulda Margrét

Hin sautján ára gamla Elín Klara Þorkelsdóttir var til umræðu í Seinni bylgjunni í gær þar sem farið var yfir síðustu umferð í Olís deild kvenna í handbolta.

„Við verðum að byrja á því að tala um stjörnu leiksins. Hún er sautján ára og þetta bara eiginlega galinn leikur hjá henni,“ sagði Svava Kristín Gretarsdóttir, umsjónarkona Seinni bylgjunnar í upphafi umræðunnar.

„Hún var stórkostleg í þessum leik og það gekk náttúrulega allt upp hjá henni. Það var stundum eins og hún væri að spila á móti unglingaflokksleikmönnum,“ sagði Solveig Lára Kjærnested, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

Klippa: Seinni bylgjan: Elín Klara Þorkelsdóttir fór á kostum á móti Stjörnunni

„Þú hittir naglann á höfuðið þarna. Það var eins og hún væri að keppa á móti þriðja flokki sem er reyndar hennar flokkur held ég. Það var því kannski eins og hún væri að keppa á móti fimmta flokki. Ég hef aldrei séð svona alhliða frammistöðu hjá sautján ára leikmanni í efstu,“ sagði Svava Kristín.

„Hún er að fífla leikmenn aftur og aftur. Marga leikmenn. Hún tekur Helenu og hún tekur Kötlu,“ sagði Solveig Lára.

„Hún er frábær þessi stelpa. Ég er alltaf pínu talsmaður þess að gefa leikmönnum tækifæri. Hún fékk tækifærið á síðasta tímabili,“ sagði Sigurlaug Rúnarsdóttir, sérfræðingur í Seinni bylgjunni.

„Svo líka þessi ellefu stopp. Þegar þú horfir á hana þá hugsar þú: Ráðumst á hana. Hún stendur vörnina alveg,“ sagði Solveig Lára.

„Hún er bara snögg og hefur þennan svaka sprengikraft. Maður stundum sér ekki þegar hún er farin. Hún var líka komin með skot sem hefur verið eitthvað sem henni hefur vantað sérstaklega á móti þéttum 6:0 vörnum.“ sagði Sigurlaug.

„Það er enginn að fara að stoppa hana á hraða. Hún er ung en hún þorir og hún bara gerir. Hún lét vaða á þetta og var stórkostleg í þessum leik. Hún er mjög góður leikmaður og það verður mjög gaman að fylgjast með henni. Ef hún ætlar að vaxa svona mikið þá verður mjög gaman að sjá hvar hún endar,“ sagði Sigurlaug.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×