Erlent

Hollendingar grípa í taumana vegna mikillar fjölgunar smitaðra

Kjartan Kjartansson skrifar
Mikið álag er á hollensk sjúkrahús vegna uppgangs faraldursins. Stjórnvöld ætla að grípa í taumana í dag.
Mikið álag er á hollensk sjúkrahús vegna uppgangs faraldursins. Stjórnvöld ætla að grípa í taumana í dag. Vísir/EPA

Eigendum öldurhúsa og veitingastaða verður gert að loka þeim snemma og íþróttaviðburðir verða haldnir fyrir luktum dyrum með nýjum og hertum sóttvarnaaðgerðum sem stendur til að kynna í Hollandi í dag.

Met var slegið yfir fjölda smitaðra á einum degi í Hollandi í gær. Búist er við því að nýju takmarkanirnar verði til þriggja vikna og taki gildi á morgun.

Fólk verður hvatt til að vinna heima hjá sér eins mikið og það getur og engir áhorfendur fá að vera á kappleikjum, þar á meðal knattspyrnuleikjum. Skólar, leikhús og kvikmyndahús verða áfram opin, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Mark Rutte, starfandi forsætisráðherra, og ríkisstjórn hans tekur endanlega ákvörðun um aðgerðirnar á fundi í dag en til stendur að kynna niðurstöðuna á blaðamannafundi síðdegis. Ekki er ljóst hvort að stjórnin fari að tillögu farsóttanefndar um að takmarka aðgang óbólusettra að opinberum stöðum eftir að takmörkunum lýkur.

Fjölgun smitaðra frá því að sóttvarnaaðgerðum var aflétt seint í september hefur sett álag á sjúkrahús landsins sem hafa þurf að draga úr annarri þjónustu til að annast Covid-sjúklinga.

Faraldurinn er í vexti víða í Evrópu, þar á meðal á Íslandi. Búist er við að hertar sóttvarnaaðgerðir verði kynntar í dag.

Í Austurríki ætla stjórnvöld að koma á verulegum takmörkunum fyrir óbólusetta og í Þýskalandi hefur nýtt met verið sett yfir fjölda smitaðra dag eftir dag í þessari viku.


Tengdar fréttir

Met dag eftir dag í „faraldri óbólusettra“ í Þýskalandi

Fleiri en fimmtíu þúsund manns greindust smitaðir af Covid-19 í Þýskalandi í gær og var það fjórða daginn í röð sem nýtt met yfir fjölda smitaðra á einum degi var slegið. Yfirvöld hafa lýst þessari bylgju sem „faraldri óbólusettra“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×