Erlent

Markle biður dómstól afsökunar vegna rangfærslna

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Mörgum þótti farið mjúkum höndum um hertogahjónin í Finding Freedom.
Mörgum þótti farið mjúkum höndum um hertogahjónin í Finding Freedom. Vísir/Getty

Meghan Markle, hertogynjan af Sussex, hefur beðið áfrýjunardómstól á Bretlandseyjum afsökunar á því að hafa ekki munað eftir því að hafa beðið aðstoðarmann um að koma upplýsingum á framfæri til höfunda bókar um hana og eiginmann hennar.

Afsökunarbeiðni Markle kemur í kjölfarið á því að fyrrverandi fjölmiðlafulltrúi hertogaynjunnar, Jason Knauf, greindi frá því fyrir dómi að þau hefðu átt í töluverðum samskiptum um fyrirhugaða bók, Finding Freedom, en Markle og eiginmaður hennar, Harry Bretaprins, hafa hingað til neitað að hafa átt aðkomu að bókinni.

Knauf sagði bókina hins vegar oftsinnis verið rædda, bæði í persónulegum samtölum og tölvupóstum. Þá hefði hann átt fund með höfundum bókarinnar, Omid Scobie og Carolyn Durand, og fengið upplýsingar frá Markle til að deila með þeim.

Þá greindi Knauf frá tölvupóstsamskiptum við Harry, þar sem prinsinn sagðist sammála því að hjónin þyrftu að geta sagt að þau hefðu ekki átt neina aðkomu að samningu bókarinnar. Hins vegar væri gott ef Knauf gæti veitt höfundunum ákveðnar bakgrunnsupplýsingar og sett hlutina í rétt samhengi.

Markle sagði að hún hefði ekki munað eftir því að hafa lagt blessun sína yfir að Knauf deildi ákveðnum upplýsingum með höfundunum og þá vissi hún ekki nákvæmlega hvaða upplýsingar hann hefði veitt þeim. Sagðist hún ekki hafa ætlað sér að villa um fyrir dóminum.

Málið sem nú er fyrir dómi varðar bréf fá hertogaynjunni til föður síns, sem var birt að hluta í miðlinum Mail on Sunday. Vann hún sigur í undirrétti en útgáfufyrirtækið Associated Newspaper Limited áfrýjaði dómnum og hefur meðal annars haldið því fram að Markle hafi samið bréfið með það í huga að því yrði líklega lekið og birt opinberlega.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×