Erlent

Os­car Pistorius sækir um reynslu­lausn

Atli Ísleifsson skrifar
Oscar Pistorius er leiddur inn í dómshús í Pretoríu árið 2016.
Oscar Pistorius er leiddur inn í dómshús í Pretoríu árið 2016. Getty

Suður-afríski spretthlauparinn Oscar Pistorius hefur sótt um reynslulausn og kann mál hans brátt að verða tekið til meðferðar, rúmum sex árum eftir að hann var fyrst dæmdur fyrir að hafa myrt kærustu sína, Reevu Steenkamp, á heimili hans í Pretoríu árið 2013.

Pistorius hefur nú afplánað rúmlega helming dómsins og getur því lögum samkvæmt sótt um reynslulausn. Pistorius skaut Steenkamp fjórum sinnum í gegnum baðherbergishurð. Viðurkenndi hann að hafa skotið hana og sagðist hafa haldið að innbrotsþjófur hafi verið á ferð.

Hinn 34 ára Pistorius var heimþekktur spretthlaupari og varð í London árið 2012 fyrsti fótalausi íþróttamaðurinn til að keppa á Ólympíuleikum. Hann hafði þá verið frægasti íþróttamaðurinn í heimi íþrótta fatlaðra.

Áfrýjunardómstóll í Suður-Afríku þyngdi árið 2017 dóminn yfir Pistorius úr sex í þrettán ára fangelsi. Í júlí síðastliðinn hafði Pistorius afplánað helming dómsins og gat því sótt um reynslulausn.

Mál hans átti að verða tekið til meðferðar hjá sérstakri nefnd sem hefur með slíkar umsóknir að gera í síðasta mánuði, en var frestað þar sem ekki hafði tekist að koma á fundi Pistorius og fulltrúa fjölskyldu Steenkamp. Slíkur fundur er forsenda þess að hægt sé að taka umsókn um reynslulausn til meðferðar.

Í frétt DW segir að fjölskylda Steenkamp hafi fengið áfall þegar fangelsisyfirvöld tilkynntu þeim að Pistorius gæti nú sótt um reynslulausn. Lögmaður fjölskyldu Steenkamp hefur ekki viljað tjá sig um hvort að fjölskylda Steenkamp muni leggjast gegn lausn Pistorius.


Tengdar fréttir

Þyngdu dóminn yfir Oscar Pistorius

Var Pist­orius dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir morðið á kærustu sinni, Reevu Steenkamp. Áður hafði hann verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir glæpinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×