Innlent

Fjölbrautaskóla Vesturlands lokað og staðan sögð alvarleg á Akranesi

Eiður Þór Árnason skrifar
Nemendur og kennarar eru beðnir um að halda sig heima fram að helgi hið minnsta. 
Nemendur og kennarar eru beðnir um að halda sig heima fram að helgi hið minnsta.  FVA

Stjórnendur Fjölbrautaskóla Vesturlands (FVA) hafa ákveðið að loka skólanum og skipta yfir í fjarkennslu fram að helgi vegna kórónuveirusmita sem hafi mögulega breiðst þar út.

Alvarleg staða er sögð vera komin upp á Akranesi og er búist við því að mikill fjöldi fólks mæti í sýnatöku á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í dag.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef skólans. Smitið er ekki talið vera upprunnið í FVA en hafi mögulega breiðst út í skólanum. Nemendur og kennarar voru sendir heim klukkan 11:35 í dag og íbúar á heimavist beðnir um að halda heim eins fljótt og unnt er.

Tæknimessan 2021 sem halda átti í FVA á morgun í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi og iðnfyrirtæki á svæðinu er frestað um óákveðinn tíma. Alls eru 63 einstaklingar í einangrun vegna Covid-19 á Vesturlandi og 100 í sóttkví, samkvæmt upplýsingum á Covid.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×