Innlent

Mega skoða síma manns sem grunaður er um að hafa sent fjöl­mörg hótunar­skila­boð

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Landsréttur
Landsréttur Foto: Vilhelm Gunnarsson/Vilhelm Gunnarsson

Lögreglan á Suðurnesjum hefur fengið heimild til þess að fara yfir farsímagögn manns sem grunaður er um líkamsárás og umsáturseinelti. Þá telur lögregla að gögnin geti nýst í öðru sakamáli gegn manninum.

Í gær staðfesti Landsréttur niðurstöðu Héraðsdóms Reykjaness um að lögreglu væru heimilt að skoða gögn á farsíma mannsins. Er lögreglan að rannsaka mál þar sem umræddur maður er grunaður um að hafa framið líkamsárás gegn manni sem hann taldi hafa verið að reyna að við fyrrverandi kærustu sína.

Segist brotaþolinn hafa fengið mikið af skilaboðum, raddskilaboðum, Facebook-skilaboðum og fleira frá manninum með hótunum um líkamsmeiðingar og að maðurinn myndi drepa hann.

Þá er maðurinn grunaður um líkamsárás gegn brotaþola með því að hafa margt oft slegið til hans inn um rúðu á vörubíl.

Telja að gögnin geti varpað ljósi á íkveikju

Einnig kemur fram í úrskurði Landsréttar að maðurinn hafi hlotið tvo dóma á árinu. Hann hafi unað einum þeirra en áfrýjað hluta hins til Landsréttar, ákæru um íkveikju sem hann var sakfelldur fyrir í héraði.

Við rannsókn á hinni meintu líkamsárás og meintu umsáturseinelti segist lögregla hafa fundið fjölda skilaboða á mörgum miðlum og einnig í formi símtala við brotaþola málsins þar sem hann meðal annars nefnir framangreinda íkveikju.

Telur lögregla því að síminn sem um ræðir hafi að geyma samskipti, myndir og fleiri upplýsingar sem gætu skipt miklu fyrir rannsókn og dómsmeðferð framangreindra mála.

Tók Landsréttur undir röksemdir lögreglunnar og staðfesti úrskurðu héraðsdóms þess efnis að lögregla megi skoða þau gögn sem kunni að leynast í síma mannsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×