Erlent

Mesti fjöldi smitaðra á einum degi síðan í janúar

Atli Ísleifsson skrifar
Öllum takmörkunum vegna Covid-19 var aflétt í Danmörku í september.
Öllum takmörkunum vegna Covid-19 var aflétt í Danmörku í september. Getty

Alls greindist 1.981 smitaður af kórónuveirunni í Danmörku síðasta sólarhringinn. Um er að ræða mesta fjöldann á einum degi síðan í byrjun janúar. Faraldurinn hefur verið í miklum vexti í landinu síðustu daga.

Þetta kemur fram á vef DR þar sem vísað er í nýjustu tölur frá heilbrigðisyfirvöldum þar í landi. Alls voru tekin tæplega 96 þúsund PCR-sýni í landinu sem þýðir að 2,09 prósent sýna voru jákvæð.

Fjöldi inniliggjandi á sjúkrahúsum vegna Covid-19 hækkar um sjö milli daga og eru þeir nú 255. Ekki hafa svo margir verið inniliggjandi á sjúkrahúsum í Danmörku vegna Covid-19 síðan í febrúar. 32 þeirra sem eru á sjúkrahúsi vegna Covid-19 eru á gjörgæslu og þar af fimmtán í öndunarvél.

Ekki var tilkynnt um neitt dauðsfall vegna Covid-19 í Danmörku síðasta sólarhringinn en alls hafa 2.716 látist af völdum sjúkdómsins frá upphafi heimsfaraldursins.

Neyðarfundur hjá farsóttarnefndinni

Faraldursnefnd danskra stjórnvalda, sem veitir ríkisstjórninni ráðgjöf, kemur saman til neyðarfundar í dag vegna þróun faraldursins. Kórónuveirutilfelli í Danmörku rúmlega tvöfölduðust milli vikna, en í síðustu viku greindust tæplega 11.400 manns samanborið við 4.800 vikuna þar á undan.

Nefndin gæti lagt til að takmörkunum verði komið á í tilraun til að hefta útbreiðslu faraldursins, en þar sem danska ríkisstjórnin ákvað í haust að hætta að skilgreina Covid-19 sem sjúkdóm sem ógni dönsku samfélagi kæmi slíkt inn á borð danska þingsins að leggja blessun sína yfir allar þær takmarkanir sem kynnu að verða lagðar til.

Öllum takmörkunum vegna Covid-19 var aflétt í Danmörku í september.


Tengdar fréttir

Skandinavísk flug­fé­lög af­nema grímu­skyldu

Fjögur skandinavísk flugfélög hafa afnumið grímuskyldu um borð í flugvélum í meirihluta flugferða. Forstjóri Icelandair segir ómögulegt að spá um hvenær grímuskyldu verður aflétt í flugvélum félagsins. 

Danir af­létta öllum tak­mörkunum 10. septem­ber

Danska ríkisstjórnin hyggst aflétta öllum takmörkunum vegna faraldurs kórónuveirunnar 10. september næstkomandi. Covid-19 verður þá ekki lengur skilgreindur sjúkdómur sem ógnar dönsku samfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×