Íslenski boltinn

Áfall fyrir Pétur og Blika

Sindri Sverrisson skrifar
Pétur Theodór Árnason, Grótta
Pétur Theodór Árnason, Grótta Foto: Pepsi Max deild karla/Vilhelm Gunnarsson

Útlit er fyrir að framherjinn stóri og stæðilegi Pétur Theodór Árnason hafi slitið krossband í hné í þriðja sinn á ferlinum, á æfingu Breiðabliks í gær.

Pétur gekk í raðir Breiðabliks frá Gróttu nú í haust eftir að hafa verið nálægt því að setja markamet í Lengjudeildinni. Þar skoraði hann 23 mörk í sumar fyrir Gróttu.

Pétur segist í samtali við Vísi vera á leið í skanna í dag til að fá úr því skorið hvers eðlis meiðslin eru. Það séu hins vegar allar líkur á því að krossbandið sé slitið. Hann sé nú á hækjum, með bólgið hné og verki, og allt minni á það þegar hann sleit krossband árin 2013 og 2014. 

Pétur var nálægt því að hætta í fótbolta eftir þessi alvarlegu meiðsli og lék um tíma með Kríu í 4. deildinni. Á tveimur árum fór hann hins vegar úr því að spila í 4. deild og upp í að spila í Pepsi Max-deildinni með Gróttu í fyrra.

Breiðablik keypti Pétur frá Gróttu og gerði við hann samning sem gildir til næstu þriggja ára. Hjá Breiðabliki er þjálfarinn Óskar Hrafn Þorvaldsson sem þjálfaði Pétur hjá Gróttu áður en hann tók við Blikum fyrir tveimur árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×