Innlent

Norðfjarðargöngum lokað vegna hruns úr lofti

Samúel Karl Ólason skrifar
Hrunið varð töluvert en talið er að meira efni hafi losast í lofti ganganna.
Hrunið varð töluvert en talið er að meira efni hafi losast í lofti ganganna. Vegagerðin

Norðfjarðargöngum milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar var lokað í dag. Það var gert eftir að hrundi úr lofti ganganna. 

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni er verið að hreinsa göngin og tryggja að hrunið verði ekki meira.

Ari Guðmundsson, yfirverkstjóri Vegagerðarinnar á Reyðarfirði, segir í samtali við fréttastofu að hrunið úr loftinu hafi verið „dálítið“. Það sé þó meira efni sem hafi losnað í loftinu við hrunið. Göngin verði ekki opnuð að svo stöddu.

Þá segir hann að verið sé að skoða hvort opna eigi í gegnum Oddskarðsgöngin.

Norðfjarðargöng voru opnuð fyrir tæpum fjórum árum síðan eða þann ellefta nóvember 2017. Þau leystu Oddskarðsgöngin og erfiðan fjallveg af hólmi og styttu ferðina milli Eskifjarðar og Neskaupstaðar nokkuð.

Göngin eru tæpir átta kílómetrar að lengd.

Uppfært 16:10 Búið er að ákveða að opna veginn um Oddskarðsgöng.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×