Innlent

Segir á­lagið mikið á meðan mála­halinn er unninn upp í Lands­rétti

Atli Ísleifsson skrifar
Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélagsins, segir að boðunarfrestur aðalmeðferða í Landsrétti sé orðinn mjög skammur.
Sigurður Örn Hilmarsson, formaður Lögmannafélagsins, segir að boðunarfrestur aðalmeðferða í Landsrétti sé orðinn mjög skammur. Vísir/Vilhelm

Sigurður Örn Hilmars­son, for­maður Lög­manna­fé­lagsins, segir gríðarlegt álag nú vera á lögmönnum sem séu með mál í áfrýjun í Landsrétti á meðan unninn er upp sá málahali sem safnaðist upp í réttinum vegna þeirrar dómaraeklu sem ríkti í kjölfar Landsréttarmálsins svokallaða.

Sigurður Örn segir frá þessu í samtali við Fréttablaðið og sömu sögu segir Her­vör Lilja Þor­valds­dóttir, for­seti Lands­réttar. Hervör segir dóminn þó halda í við þau mál sem koma inn.

Sigurður Örn segir í samtali við blaðið að boðunar­frestur aðal­með­ferða sé orðinn mjög skammur og að slíkt geti valdið lögmönnum vandræðum þar sem þeir ráða ekki dagsetningunum og verði að skipuleggja sig í kringum þær. 

Hann bendir einnig á að almennt taki of langan tíma að taka málsgögn úr héraðsdómi saman í svokallaða dómsgerð þegar máli er áfrýjað til Landsréttar.

Mál á borði Landsréttar fóru að safnast upp skömmu eftir stofnun réttarins, þegar dómsmálaráðherra skipaði fimmtán dómara en þrír þeirra fóru svo í leyfi vegna Landsréttarmálsins svokallaða.

Lögmannafélagið fundaði með Dómstólasýslunni í gær um álagið og segir Sigurður Örn í samtali við blaðið að fundurinn hafi gengið vel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×