Viðskipti innlent

Reikni­stofa fisk­markaða fær lög­bann á fram­kvæmda­stjórann fyrr­verandi

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Eyjólfur segist munu bíða eftir niðurstöðu dómstóla.
Eyjólfur segist munu bíða eftir niðurstöðu dómstóla. Vísir/Vilhelm

Nýtt fyrirtæki sem hugðist veita Reiknistofu fiskmarkaða ehf. samkeppni hefur fengið á sig lögbann og getur ekki hafið starfsemi fyrr en málið hefur farið sína leið fyrir dómstólum. 

Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag en þar segir að sýslumaðurinn í Keflavík hafi samþykkt lögbannskröfu Reiknistofu fiskmarkaða á hendur fyrirtækinu NRS. 

Eyjólfur Þór Guðlaugsson er framkvæmdastjóri og einn eigenda NRS. Hann segir lögbannið hafa komið sér á óvart en það byggi helst á því að hann hafi ekki mátt stofna fyrirtæki í samkeppni við Reiknistofuna eftir að hafa starfað sem framkvæmdastjóri hennar um árabil.

„Mér var sagt upp störfum þar án nokkurrar skýringar. Þetta er áratugalangt starf og ég stóðst bara ekki mátið að halda áfram á þessari braut,“ hefur Morgunblaðið eftir Eyjólfi og segir Reiknistofuna hafa notið einokunarstöðu á fiskuppboðsmarkaðnum til þessa.

Eyjólfur gengst við því að samkeppnisákvæði hafi verið að finna í ráðningarsamningi hans en það ætti ekki að hafa áhrif þar sem honum hafi verið sagt upp og ekkert ákvæði að finna í starfslokasamningnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×