Erlent

Hjúkrunarfræðingur fundinn sekur um að hafa myrt fjóra sjúklinga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Davis er sagður hafa haft í hyggju að myrða sjö einstaklinga.
Davis er sagður hafa haft í hyggju að myrða sjö einstaklinga.

Bandarískur hjúkrunarfræðingur hefur verið fundinn sekur um að hafa myrt fjóra sjúklinga með því að sprauta súrefni í æðar þeirra. Sjúklingarnir höfðu allir gengist undir hjartaaðgerð.

William Davis, 37 ára, á yfir höfði sér að verða dæmdur til dauða.

Ákæruvaldið sagði Davis hafa haft í hyggju að myrða sjö einstaklinga á árunum 2017 til 2018.

Mennirnir fjórir, sem voru á aldrinum 47 til 74, voru á batavegi í kjölfar aðgerðanna og sögðust læknar ekkert hafa botnað í því hvað kom til að þeim hrakaði. Sýndu þeir einkenni í ætt við flog og létust af völdum heilaskemmda.

Það var ekki fyrr en læknar skoðuðu sneiðmyndir af höfðum sjúklinganna og urðu varir við loft á myndunum að grunur vaknaði um að eitthvað misjafnt hefði átt sér stað. 

Við réttarhöldin voru sýndar myndbandsupptökur af Davis þar sem hann fór inn í herbergið til eins sjúklingsins en þremur mínútum síðar fóru viðvörunarbjöllur af stað. 

Lögmaður Davis hélt því fram að ákæruvaldið hefði ekki lagt fram nein sönnunargögn til að styðja það að mennirnir hefðu verið myrtir og lét að því liggja að verið væri að gera Davis að blóraböggli vegna vankanta á þjónustu sjúkrahússins.

Saksóknarar segja Davis þvert á móti hafa notið þess að deyða fólk og að þeir muni fara fram á það að hann sæti sömu örlögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×