Innlent

Sprengjan í Þor­láks­höfn reyndist vera eftir­líking

Eiður Þór Árnason skrifar
Aðgerðir stóðu í um fimm klukkustundir. Ljósmyndin er úr safni.
Aðgerðir stóðu í um fimm klukkustundir. Ljósmyndin er úr safni. Vísir/Vilhelm

Sprengjudeildir Landhelgisgæslunnar og sérsveitar Ríkislögreglustjóra voru kallaðar til á áttunda tímanum í morgun vegna torkennilegs hlutar sem fannst á gámasvæðinu í Þorlákshöfn. Aðgerðum lauk um klukkan um klukkan 13 og reyndist engin hætta vera á ferðum. 

Upphaflega var talið að hluturinn gæti verið sprengja og var lögreglan með þó nokkurn viðbúnað á svæðinu. Þorsteinn M. Kristinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi og vettvangsstjóri aðgerðarinnar, segir að um hafi verið að ræða einhvers konar eftirlíkingu eða leikmun sem líktist raunverulegri sprengju. 

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við fréttastofu á ellefta tímanum í dag að lögreglan tæki málið alvarlega. Aðgerðir stæðu yfir þar til búið væri að tryggja að engin hætta væri til staðar. 

Ekki nóg að hafa 99 prósent vissu

Þorsteinn M. Kristinsson, varðstjóri hjá lögreglunni á Suðurlandi og vettvangsstjóri aðgerðarinnar, sagði við fréttastofu á ellefta tímanum að torkennilegur hlutur hafi fundist á sorpsvæði bæjarins. Í samræmi við viðeigandi verklag hafi fulltrúar frá sprengjudeild sérsveitar Ríkislögreglustjóra og sprengjusveit Landhelgisgæslunnar verið kallaðir út. 

Telur þú ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu?

„Nei, ekki þannig lagað en menn þurfa að gera þetta á þann hátt að öryggi sé tryggt allan tímann, þar til það er alveg 100 prósent vissa fyrir því hvað þetta er. 99 prósent er ekki nóg,“ sagði Þorsteinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×