Erlent

Fundu sverð krossfara á hafsbotni við Ísrael

Kjartan Kjartansson skrifar
Sverðið er sagt í fullkomnu ástandi undir þykku lagi af hrúðurköllum, kuðungum og öðrum sjávarlífverum.
Sverðið er sagt í fullkomnu ástandi undir þykku lagi af hrúðurköllum, kuðungum og öðrum sjávarlífverum. AP/Ariel Schalit

Áhugakafari fann sverð sem er talið hafa tilheyrt riddara sem tók þátt í einni krossfaranna fyrir um 900 árum undan ströndum norðanverðs Ísraels um helgina. Sverðið er sagt í nær fullkomnu ástandi þrátt fyrir að það hafið verið hjúpað sjávarlífverum.

Talið er að sverðið hafi legið undir setlögum en hafi borist aftur upp á yfirborð sjávarbotnsins þegar sandur hreyfðist þar til, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Sverðið er einn metri að lengd. Til stendur að sýna það opinberlega þegar það hefur verið þrifið og rannsakað.

Kobi Sharvit frá Forminjastofnun Ísraels, segir að Carmel-ströndin þar sem sverðið fannst hafi verið var fyrir skip í stormum um margra alda skeið. Leifar fjölda verslunarskipa hafa fundist þar í gegnum tíðina.

Sverðið fannst á um fimm metra dýpi og um 150 metrum utan við ströndina. Kafarinn óttaðist að sverðið gæti grafist aftur í sandinn og tók það með sér upp á land. Kom hann því svo í hendur yfirvalda, að sögn AP-fréttastofunnar. Það virðist vera úr járni.

Trúheitir kristnir Evrópubúar stóðu fyrir röð svonefndar krossferða sem var ætlað að „frelsa“ landið helga við austanvert Miðjarðarhaf undan yfirráðum múslima á miðöldum. Rómversk-kaþólska kirkjan lagði blessun sína yfir blóði drifnar krossfarirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×