Íslenski boltinn

Segir að Stjarnan fái ekki Heimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Heimir Hallgrímsson kom íslenska karlalandsliðinu á tvö stórmót.
Heimir Hallgrímsson kom íslenska karlalandsliðinu á tvö stórmót. vísir/vilhelm

Heimir Hallgrímsson verður ekki næsti þjálfari karlaliðs Stjörnunnar. Þetta segir Hjörvar Hafliðason, þáttastjórnandi Dr. Football.

Heimir hefur verið orðaður við Stjörnuna að undanförnu. Eyjamaðurinn vildi ekki tjá sig um orðróminn í samtali við Vísi en sagðist hafa átt í viðræðum við fjölmörg félög, bæði hér á landi og erlendis.

Möguleikinn á að Heimir taki við Stjörnunni virðist hins vegar vera úr sögunni ef marka má færslu Hjörvars á Twitter í dag.

„Heimir Hallgrímsson verður ekki þjálfari Stjörnunnar. Mjög metnaðarfull tilraun Garðbæinga og munaði litlu segja menn á Garðaflötinni. Núna eru Stjörnumenn í alvöru veseni með að finna þjálfara,“ skrifaði Hjörvar.

Heimir hefur verið án starfs síðan hann hætti hjá Al Arabi í Katar síðasta vor. Hann stýrði áður íslenska karlalandsliðinu í sjö ár, fyrst sem aðstoðarþjálfari í tvö ár, eftir að hafa þjálfað karla- og kvennalið ÍBV heima í Vestmannaeyjum.

Stjarnan hóf síðasta tímabil undir stjórn Rúnars Páls Sigmundssonar en hann hætti óvænt eftir fyrsta leik liðsins í Pepsi Max-deildinni. Þorvaldur Örlygsson færðist þá úr stöðu aðstoðarþjálfara og stýrði Stjörnunni út leiktíðina en hætti svo og gerðist rekstarstjóri knattspyrnudeildar félagsins.

Stjarnan endaði í 7. sæti Pepsi Max-deildarinnar á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×