Innlent

Stal veiði­græjum að and­virði þriggja milljóna

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Maðurinn var dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi vegna stuldsins. 
Maðurinn var dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi vegna stuldsins.  Vísir/Vilhelm

Karlmaður hefur verið dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stolið veiðivörum og íþróttafötum að andvirði rúmra þriggja milljóna króna úr bíl í júní í fyrra. Maðurinn er þá jafnframt sakfelldur fyrir að hafa stolið mat- og snyrtivöru úr Bónus sem alls hefði kostað hann rétt tæpar 5.000 krónur að greiða fyrir.

Veiðivarningnum og íþróttafötunum stal maðurinn, ásamt öðrum, úr bifreið sem stóð á bílastæði í Reykjavík en varningurinn fannst svo allur á heimili mannsins við húsleit lögreglu. Maðurinn játaði brot sín en hann er góðvinur lögreglu og nær sakaferill hans aftur til ársins 2004.

Eigandi veiðivarningsins gerði þá kröfu fyrir dómi að maðurinn skyldi greiða honum fjórar milljónir króna í miskabætur en þeirri kröfu var hafnað af Héraðsdómi Reykjavíkur. Fram kemur í dómnum að fjárhæð kröfunnar sé mun hærri en sú fjárhæð sem vörurnar voru metnar á og ekki lægju fyrir nein gögn sem geti varpað ljósi á meint tjón og umfang þess.

„Ennfremur má skilja ákæru svo að þýfið hafi fundist á ákærða og því ekki víst að bótakrefjandi hafi orðið fyrir tjóni,“ segir í dómnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×