Erlent

Loksins laus við gúmmí­dekk eftir tvö erfið ár

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Myndir og myndbönd af skógarhirtinum hafa gengið um samfélagsmiðla síðustu tvö árin.
Myndir og myndbönd af skógarhirtinum hafa gengið um samfélagsmiðla síðustu tvö árin. Twitter/CPW NE Region/Dan Jaynes

Dýralífsyfirvöld í Colorado-fylki í Bandaríkjunum segja að gúmmídekk sem hefur verið fast utan um háls skógarhjartar í tvö ár hafi loksins náðst af honum. Vandinn fólst ekki í að ná dekkinu af heldur að klófesta sjálfan hjörtinn sem hefur runnið úr greipum yfirvalda á svæðinu oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

Og oftar en þrisvar ef út í það er farið því það var í fjórðu tilraun yfirvalda, aðeins í síðustu viku, til að skjóta hann með deyfibyssu sem það loksins hafðist.

Starfsmenn dýralífsyfirvalda í fylkinu urðu að skera gríðarstór horn skógarhjartarins af honum til að geta fjarlægt dekkið því þeim tókst ekki að klippa sig í gegn um stálvíra í kanti dekksins.

„Við hefðum frekar kosið að skera dekkið af og skilja hornin eftir fyrir hann en staðan var bara þannig að við urðum að ná dekkinu af eins fljótt og hægt var,“ er haft eftir Scott Murdoch, starfsmanni yfirvalda, í frétt The Guardian.

Dýralífsyfirvöld hafa lengi deilt myndum og myndböndum af hirtinum á samfélagsmiðlum en dýrið er fjögurra ára gamalt.

Yfirvöld segja það ótrúlegt hversu vel farinn háls hjartarins var eftir dekkið þó það megi ljóst vera að það hafi íþyngt honum mjög síðustu tvö árin.

Hann var ekki nema með eitt lítið sár en hafði þó misst nokkuð af hári af svæðinu í hring um hálsinn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×