Fótbolti

Gæti orðið fyrsta undankeppnin í meira en fjörutíu ár án heimasigurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í íslenska landsliðinu hafa uppskorið lítið á Laugardalsvellinum í þessari undankeppni.
Jóhann Berg Guðmundsson og félagar í íslenska landsliðinu hafa uppskorið lítið á Laugardalsvellinum í þessari undankeppni. Vísir/Hulda Margrét

Í kvöld er síðasti möguleikinn fyrir íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu að vinna leik á Laugardalsvellinum í undankeppni HM í Katar 2022.

Íslenska liðið tekur á móti Liechtenstein sem jafnframt verður fimmti heimaleikur liðsins í röð í þessari undankeppni.

Íslensku strákarnir hafa fagnað mörgum sigrum í Laugardalnum undanfarin ár en svo hefur ekki verið í þessari fyrstu undankeppni undir stjórn þeirra Arnars Þórs Viðarssonar og Eiðs Smára Guðjohnsen.

Í síðustu tveimur undankeppnum (HM 2018 og EM 2020) unnust níu af tíu heimaleikjum liðsins og tíundi heimasigurinn kom síðan í umpilsleik á móti Rúmeníu. Nú er staðan allt önnur og liðið bíður enn eftir fyrsta heimasigri sínum.

Íslenska liðið hefur aðeins náð tveimur stigum samanlagt út úr fjórum fyrstu heimaleikjum sínum og er eins og er með fleiri stig á útivelli en á heimavelli í keppninni.

Íslensku strákarnir náðu að jafna metin á móti Norður-Makedóníu og Armeníu en töpuðu heimaleikjum sínum á móti Þýskalandi og Rúmeníu.

Takist liðinu ekki að vinna lið Liechtenstein í kvöld þá yrði þetta fyrsta undankeppnin í meira en fjörutíu ár þar sem liðið nær ekki að vinna heimaleik.

Íslenska liðið tapaði öllum sínum heimaleikjum í undankeppni EM 1980 en íslenska liðið var þá í riðli með Hollandi, Póllandi, Austur-Þýskalandi og Sviss. Heimaleikirnir töpuðust með markatölunni 1-11.

Þegar kemur að undankeppnum heimsmeistaramótsins þá hefur íslenska liðið unnið að minnsta kosti einn leik allar götur síðan í undankeppni HM 1974. Þá spilaði íslenska liðið reyndar aðeins einn heimaleik hér á landi en heimaleikirnir á móti Hollandi og Belgíu voru báðir spilaðir erlendis.

  • Heimaleikir Íslands í undankeppnum HM 2018 og EM 2020:
  • 9 sigrar í 10 leikjum
  • 1 tapleikur
  • Markatala: +16 (18-4)
  • -
  • Heimaleikir Íslands í undankeppni HM 2022:
  • 0 sigrar í 4 leikjum
  • 2 tapleikir
  • Markatala: -6 (3-9)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×