Fótbolti

Chiellini skammast sín fyrir rasista­öskur stuðnings­mannanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giorgio Chiellini á æfingu með ítalska landsliðinu fyrir leikinn á San Siro í kvöld.
Giorgio Chiellini á æfingu með ítalska landsliðinu fyrir leikinn á San Siro í kvöld. EPA-EFE/MATTEO BAZZI

Giorgio Chiellini, miðvörður Juventus og ítalska landsliðsins, hefur fordæmt hegðun stuðningsmanna Fiorentina gagnvart leikmönnum Napoli á dögunum.

Napoli leikmennirnir Kalidou Koulibaly og Victor Osimhen sögðu frá því á samfélagsmiðlum hvernig þeir hafa mátt þola kynþáttaníð allan leikinn á móti Fiorentina sem Napoli liðið vann 2-1.

Andre-Frank Zambo Anguissa, sem er á láni hjá Napoli frá Fulham, var líka einn af þeim sem mátti þola slíkt.

Chiellini segist skammast sín fyrir það hvernig stuðningsmennirnir létu og hann kallar eftir aðgerðum. „Við þurfum lög og reglur sem er fylgt eftir,“ sagði hinn 37 ára gamli reynslubolti sem hefur séð ýmislegt á sínum langa fótboltaferli.

„Ég skammaðist mín, sem Ítali og sem maður frá Toskana, en líka af því að Ítalía er fyrir mitt leyti ekki rasistaríki,“ sagði Giorgio Chiellini.

„Það þarf eitthvað að gerast því annars munum við mála mjög ljóta mynd af okkur út á við,“ sagði Chiellini.

Giorgio Chiellini er fyrirliði ítalska landsliðsins sem mætir Spáni í kvöld á heimavelli í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar en Ítalir, sem urðu Evrópumeistarar í júlí, geta þar unnið sinn annan titil á árinu.

Undanúrslitaleikur Ítalíu og Spánar hefst klukkan 18.45 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×