Viðskipti innlent

Aukinn hag­vöxtur og hraðari efna­hags­bati þökk sé loðnunni

Eiður Þór Árnason skrifar
Loðna dælist í lestina um borð í Beiti NK með Snæfellsjökul í baksýn.
Loðna dælist í lestina um borð í Beiti NK með Snæfellsjökul í baksýn. KMU

Greining Íslandsbanka telur að aukin loðnuveiði komi til með að auka hagvöxt um 0,8 prósentustig á næsta ári og ýta undir efnahagsbata eftir faraldurinn.

Hafrannsóknarstofnun ráðlagði nýverið veiðar á allt að 904 þúsund tonnum af loðnu fyrir komandi vertíð. Kvótinn sjöfaldast milli ára og hefur ekki verið meiri síðan 2003.

Reiknast bankanum til að hagvöxturinn gæti reynst í kringum 4,4% á næsta ári í stað 3,6% líkt og hann spáði í september. Þó er sá fyrirvari settur við nýju spánna að ýmsir þættir eru enn óljósir á borð við aflabrögð, verðþróun á mörkuðum og samsetning afurða.

Reikna nú með 6 til 8% aukningu í stað samdráttar

„Í nýútkominni þjóðhagsspá okkar var gert ráð fyrir þokkalegri loðnuvertíð á komandi vetri enda höfðu þá þegar komið fram vísbendingar um aukningu milli ára.

Ráðgjöfin nú er hins vegar umtalsvert myndarlegri en okkur hafði órað fyrir og eru því horfur á að útflutningur sjávarafurða vaxi talsvert á komandi ári, líklega á bilinu 6-8%, í stað þess tæplega 2% samdráttar sem við höfðum áætlað,“ segir í samantekt Jón Bjarka Bents­sonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka.

Á móti er gert ráð fyrir einhverri aukningu í innflutningi á aðföngum fyrir sjávarútveginn en talið að þau áhrif verði hófleg.

Auknar líkur á þróttmiklum vexti

Telur Greining Íslandsbanka að viðskiptajöfnuður geti batnað nokkuð hraðar þegar kemur fram á næsta ár en áður var gert ráð fyrir vegna þessa.

„Þeirri þróun mun að óbreyttu fylgja heldur hraðari styrking krónu en við spáðum í september, sem svo aftur leiðir til þess að verðbólga hjaðnar öllu hraðar á komandi ári en við væntum.“

Myndarlegri loðnuvertíð fylgi einnig fjölgun starfa og aukin umsvif í hagkerfinu, sér í lagi á svæðum á borð við Austfirði og Vestmannaeyjar þar sem aflanum verður landað og hann unninn.

Að sögn Jón Bjarka er óhætt að fullyrða að líkurnar á þróttmiklum vexti á komandi ári hafi aukist við þessi tíðindi.

Samanburður á spám Íslandsbanka


Tengdar fréttir

Leggja til mikla loðnuveiði

Hafrannsóknarstofnun leggur til að fiskveiðiárið 2021/2022 verði ekki veidd meira en 904.200 tonn af loðnu. Það er mun meira en lagt var til í fyrra en samtals veiddust 128.600 tonn af loðnu á fiskveiðiárinu 2020/2021. Var það með minnsta móti frá því loðnuveiðar hófust, séu ár án veiði undanskilin.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×