Sport

Óbólusett íþróttafólk á ÓL í Peking þarf að fara í þriggja vikna sóttkví

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá kynningarhátið fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking 2022 en það má búast við glæsilegri umgjörð hjá Kínverjum á þessum leikum.
Frá kynningarhátið fyrir Vetrarólympíuleikana í Peking 2022 en það má búast við glæsilegri umgjörð hjá Kínverjum á þessum leikum. EPA-EFE/WU HONG

Allir sem ætla að mæta á vetrarólympíuleikana í byrjun næsta árs þurfa annað hvort að mæta fullbólusettir til Kína eða fara í 21 dags sóttkví áður en þeir keppa á leikunum.

Skiptir ekki máli hvort um sé að ræða keppendur, þjálfara starfsmenn eða aðra gesti.

Forráðamenn Ólympíuleikana í Peking 2022 greindu Thomas Bach, forseta Alþjóðaólympíunefndarinnar, frá sóttvarnarreglum leikanna í gær.

Miðar á íþróttaviðburðina verða aðeins seldir til fólks frá meginlandi Kína en þeir sem eru fullbólusettir mega ferðast frjálst um sérstakt svæði sem verður helgað leikunum. Á því svæði verða öll íþróttasvæðin sem og gistiaðstaðan, veitingaaðstaðan og þar sem bæði opnunar- og lokahátíðin fer fram.

Allir keppendur fara í kórónuveirupróf á hverjum degi en það gera líka allir starfsmenn sem eru inn á fyrrnefndu svæði.

Eins og með Ólympíuleikana í Tókýó þá fær íþróttafólkið ekkert að flakka um landið heldur þarf það að halda sig á réttum stöðum allan tíma. Brot á þessu gæti þýtt það að því yrði vísað frá landi og gæti ekki keppt á leikunum.

Vetrarólympíuleikarnir hefjast 4. febrúar 2022 og verða í sextán daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×