Erlent

Ætluð­u að ræna eða myrð­a fos­æt­is­ráð­herr­a Holl­ands

Samúel Karl Ólason skrifar
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, á gangi um götur Haag.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, á gangi um götur Haag. EPA/Bart Maat

Yfirvöld í Hollandi hafa aukið öryggisgæslu Mark Rutte, forsætisráðherra, töluvert vegna ógna frá glæpasamtökum í landinu. Það var gert eftir að lögreglan í Hollandi komst á snoðir um að glæpamenn ætluðu sér að reyna að ræna eða jafnvel myrða forsætisráðherrann fráfarandi.

Samkvæmt heimildum dagblaðsins De Telegraaf snýr ógnin að Mocro-mafíunni svokölluðu. Skipulögðum glæpasamtökum hefur vaxið ásmegin í Hollandi á undanförnum árum og hafa myrt opinbera aðila eins og blaðamanninn Peter R. de Vries.

Hann var mjög þekktur blaðamaður sem var þyrnir í síðu glæpagengja og hafði verið lengi. De Vries var skotinn til bana þegar hann yfirgaf húsnæði sjónvarpsstöðvar þar sem hann hafði tekið þátt í umræðuþætti.

Sjá einnig: Þekktasti blaðamaður Hollands dáinn eftir skotárás

Heimildir Telegraaf herma að menn hafi sést fylgjast með ferðum Rutte en það sama gerðist þegar de Vries var myrtur.

Rutte er þekktur fyrir að vera andvígur mikilli öryggisgæslu og að hjóla í vinnuna. Reuters segir hann iðulega stoppa og ræða við gangfarendur og taka með þeim myndir. Óljóst er hvort hann geti haldið því áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×